Vefþjóðviljinn 161. tbl. 20. árg.
Nú eru sjö ár frá því „Svavars-samningurinn“ var gerður, Icesave-samningurinn fyrsti.
Vinstristjórn Jóhönnu og Steingríms gerði þrjár tilraunir til að semja um að Ísland bæri ábyrgð á Icesave-reikningunum. Fyrsti samningurinn hefur verið kenndur við Svavar Gestsson og það var versti samningurinn. Utan þings voru margir sem hvöttu til þess að samningurinn yrði staðfestur.
Þessi samningur var svo slæmur að jafnvel vinstristjórninni tókst ekki að koma honum í gegnum þingið eins og hún vildi. Alþingi samþykkti lög um samninginn en bætti við fyrirvörum sem urðu til þess að Bretar og Hollendingar höfnuðu samningnum.
Meðal þess sem notað var til að mæla með samningnum var að með honum kæmist íslenska hagkerfið „í skjól“. Það þyrfti nefnilega ekki að greiða skuldbindingar vegna samningsins næstu sjö árin.
Þau sjö ár eru nú liðin.
Óli Björn Kárason rekur þessa sögu í Morgunblaðinu í dag. Þar segir hann:
Svavars-samningarnir hefðu reynst Íslendingum dýrkeyptir. Sjö ára skjólinu, sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lagði svo mikla áherslu á, hefði lokið síðastliðinn sunnudag – 5. júní. Skuld ríkissjóðs – íslenskra skattgreiðenda – hefði numið 208 milljörðum króna eða 8,8% af áætlaðri landsframleiðslu. Þetta jafngildir að hver fjögurra manna fjölskylda hefði skuldað 2,5 milljónir króna vegna samninga sem áttu sér enga lagastoð.
Það tókst ekki að fá meirihluta Íslendinga til að taka á sig ábyrgð á Icesave-reikningunum. Þess vegna komst hagkerfið ekki í sjö ára skjól, heldur varanlegt skjól fyrir þeim.