Föstudagur 156. tbl. 20. árg.

Vefþjóðviljinn 156. tbl. 20. árg.

Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur alþingismanns nú nýlega kemur fram að tekjur ríkisins vegna opinberra gjalda á álver hafi numið rúmlega 21,4 milljörðum króna á föstu verðlagi, árin 2009 – 2015.

Hér eru einungis talin bein bein gjöld fyrirtækjanna eins og tekjuskattur, tryggingagjald og útvarpsgjald. Mun meira fé kemur að sjálfsögðu til ríkis og sveitarfélaga vegna starfsemi álfélaganna.

Þar má margt nefna. Starfsmenn álfélaganna fá greidd há laun enda eru störfin eftirsótt. Af þessum háu launum er greiddur tekjuskattur og útsvar, sem verulega munar um. Starfsfólkið getur framfleytt sér og sínum, eyðir laununum sínum í verslunum, veitingastöðum og á ótöl öðrum stöðum. Álfyrirtækin sjálf kaupa þjónustu af ýmsum smærri fyrirtækjum sem veita fjölda fólks vinnu. Þannig má lengi telja.

Þetta á að sjálfsögðu ekki aðeins við um álfyrirtæki. Það eru stór og smá fyrirtæki sem skapa verðmæti á hverjum einasta degi, veita tugþúsundum manna atvinnu og sjá til þess að þjóðfélagið gangi.

Þeir eru til sem halda að fyrirtæki séu baggi á þjóðfélaginu. Eða að nauðsynlegt sé að ríkið kreisti sem allra mest út úr fyrirtækjunum. Leggja eigi á þau sífellt hærri skatta, ný og ný gjöld, nýjar og nýjar reglur, heimta af þem vottorð og starfsleyfi fyrir hverju skrefi og svo framvegis. Og það sé auðvitað nauðsynlegt að ríkið ráði því hvernig kynjahlutföllin séu í stjórnum þeirra.

Hvernig væri að stjórnmálamenn reyndu að gefa fyrirtækjum meira svigrúm til að dafna? Bættum hag fyrirtækja fylgja yfirleitt fleiri og betur launuð störf venjulegs fólks.

Núverandi stjórnvöld hefðu mátt gera fleira til að bæta starfskilyrði fyrirtækja. Nýleg lækkun tryggingagjalds er framfaraskref ásamt afnámi almennra tolla og vörugjalda.

En svo ætla menn að rjúfa þingið svo vinstrimenn verði ekki búnir að missa of mikið fylgi þegar kemur að kosningum. Enginn hefur getað fært nein rök fyrir þessu önnur en þau að þetta hafi verið nefnt í einu viðtali fyrir tveimur mánuðum.

Síðan er talað eins og alls ekki megi breyta um áætlun frá því sem nefnt hafi verið í þessu viðtali. Áður höfðu menn í þrjú ár ætlað að láta kjósa í apríl 2017. Því má breyta í einu viðtali, en því sem sagt er í viðtalinu má ekki breyta.