Vefþjóðviljinn 136. tbl. 20. árg.
Stundum er bent á það, til stuðnings skattalækkunum, að með þeim minnki hvatinn til þess að koma peningum undan skatti. Það er auðvitað hárrétt, þótt menn verði einnig að gæta þess að miða ekki löggjöfina bara við sjónarmið lögbrjótanna.
En þetta er rétt og menn þurfa ekki að hugsa sig lengi um til að sjá það.
Erfðafjárskattur getur verið dæmi. Hann var 5% milli nánustu erfingja. Vinstristjórnin tvöfaldaði skattinn, fór með hann í 10%. Maður sem erfir fimm milljóna króna innbú þarf að borga 500 þúsund krónur en hefði áður þurft að borga 250 þúsund krónur. Maður sem erfir 20 milljóna króna kjallaraíbúð eftir aldraða foreldra sína þarf að borga tvær milljónir í staðinn fyrir eina.
Það er kannski erfitt að komast undan því að borga skatt af íbúðinni, en klókur endurskoðandi finnur kannski leið til þess. Innbúið getur maðurinn skráð sem lítils virði og sloppið við skattinn.
Því hærri sem skatturinn, því hærri er freistingin að komast hjá skattgreiðslunni. Maður sem vill ekki „gera sig að skattsvikara fyrir hundrað þúsundkall“ hugsar sig kannski aftur um, ef fjárhæðin er komin í hálfa milljón. Eða milljón.
Margir eru sannfærðir um að fólk hafi stofnað erlend félög til þess að sleppa undan skattgreiðslum. Þótt slíkt eigi alveg örugglega ekki við um alla, jafnvel ekki við um flesta, þá er einnig líklegt að það eigi við um einhverja. Kannski hafa skattahækkanir undanfarinna ára haft þar eitthvað að segja. Því hærri sem skattarnir eru, því meira eru margir tilbúnir að leggja á sig til að sleppa við þá.
Þetta blasir allt við.
En það má ekki gleyma því sjónarmiði að ekki á að eltast við allt sem lögbrjótum kynni að koma vel. Meginröksemdin fyrir skattalækkunum er ekki sú að þær dragi úr undanskotum, þó þær geri það vafalaust. Og meðal annars þess vegna lækka tekjur ríkisins ekki eins mikið og menn halda þótt skattar séu lækkaðir. Fyrir utan þá staðreynd að lækkun skatta á einum stað eykur stundum skattgreiðslu annars staðar. Og skattahækkun á einum stað getur dregið úr skattgreiðslum annars staðar. Maðurinn sem borgar hálfa milljón í erfðafjárskatt en hefði borgað 250.000 krónur ef skatturinn hefði ekki verið hækkaður, hann hættir við að kaupa sér vélsleða. Ríkið fær þá ekki þau gjöld. Sölumaðurinn í vélsleðabúðinni fær ekki bónus þann mánuðinn og af þeim bónusi verður ekki borgaður tekjuskattur.
Meginröksemdirnar fyrir skattalækkunum eru þær að með skattalækkunum aukast áhrif hins venjulega manns á eigið líf. Hver maður heldur meira fé eftir í veskinu við hver mánaðamót. Hann getur veitt sér meira. Eða á aðeins auðveldara með að láta enda ná saman. Af þeim krónum, mörgum eða fáum, sem hann vinnur sér inn, fær hann fleiri en stjórnmálamennirnir færri. Guðrún skattgreiðandi eyðir fleiri krónum samkvæmt gildismati Guðrúnar skattgreiðanda en færri krónum samkvæmt gildismati Stefáns stjórnmálamanns.
Það er mjög vinsælt núna að segjast ekki treysta stjórnmálamönnum. Alþingi sé alveg ómögulegt. Embættismenn lélegir. Ráðherrarnir alveg ferlegir. Þingmenn flestir gagnslausir nema auðvitað Píratar sem séu svo einlægir að segjast ekki vita neitt. En samt vilja þeir, sem þannig tala, yfirleitt ekki heyra minnst á skattalækkanir.
„Stjórnmálamenn eru ómögulegir. Kerfið bregst. Ég vil lýðræði, valddreifingu og valdeflingu“ segja margir. Og bæta við: „Og ég vil líka að stjórnmálamenn, sem eru ómögulegir, fái meiri peninga frá fólkinu, sem ég vil efla, til að borga í kerfið, sem mér finnst bregðast.“