Föstudagur 6. maí 2016

Vefþjóðviljinn 127. tbl. 20. árg.

Frá Normandie.
Frá Normandie.

Guðmundur kom frá útlöndum í fyrra. Keypti sér úrvals veiðihjól, Ipad fyrir konuna sína og nýjasta snjallsímann sem dóttirin hafði beðið um lengi. Svo keypti hann sér buxur í London og þó nokkuð fallegan kjól á konuna, rándýran. Í Keflavík gekk hann öruggum skrefum gegnum græna hliðið. Honum sýndist enginn fara í rauða hliðið enda ekki ástæða til.

Gunnar þurfti sendibíl um daginn til að flytja varning milli húsa. Þegar Gunnar þurfti að borga fyrir bílinn sagði bílstjórinn að túrinn kostaði tíuþúsundkall ef hann borgaði með seðlum en rúmar tólf þúsund ef Gunnar borgaði með korti og vildi nótu. Gunnar var fljótur að hugsa og sparaði sér rúmlega tvöþúsundkall. Það var ekki nema sanngjarnt fyrst veiðigöldin hafa ekki hækkað meira.

Helga fékk arf. Innbúið var mjög verðmætt en hún var svo heppin að vinkona hennar þekkir vel til þessara mála og ráðlagði henni að skrá að það hefði kostað hálfa milljón. Skartgripina tók tók hún og setti í eigið skartgripaskrín enda hafði sú látna alltaf viljað það. Þetta kom engum við nema þeim.

Magnús ákvað fyrir nokkrum árum að kaupa sér hús í Frakklandi. Hann bað bankann sinn um að annast það. Þeir stofnuðu fyrir hann erlent félag í einhverju landi sem Magnús veit ekki alveg hvar er. Félagið keypti svo húsið og Magnús fer þangað stundum en þó sjaldnar en hann ætlaði sér. Hann gefur félagið upp á skattframtalinu og félagið borgar af húsinu í Frakklandi. Hann er að spá í að fá sér frekar annað hús þar sem er betri matur.

Hver þessara fjögurra komu sér undan greiðslum til ríkisins?

Auðvitað eru ekki allir þeir, sem fara í gegnum græna hliðið, borga sendibíl með peningum eða fá arf, einhverjir svindlarar. Líklega fæstir. Og engan þeirra ætti að fara með eins og svindlara nema það hafi þá verið sannað að hann sé það.