Vefþjóðviljinn 125. tbl. 20. árg.
Árið 2009 skikkaði Evrópusambandið aðildarríki sín til að hefja stórfellda íblöndun á dýru „endurnýjanlegu“ eldsneyti í hefðbundið eldsneyti. Árið 2020 skyldi þessi íblöndun komin í 10%. ESB taldi að þessi íblöndun myndi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Fljótlega komu þó fram efasemdir um að sú væri raunin auk þess sem aðrar ókræsilegar hliðarverkanir væru einnig til staðar.
Það stöðvaði hreinu vinstri stjórnina hér á landi þó ekki í því að apa þetta eftir ESB við lok síðasta kjörtímabils vorið 2013. Milljónir lítra af lífeldsneyti streyma því til landsins og ríkissjóður Íslands styður innkaup á hverjum lítra um 70 krónur.
Nýjasta rannsóknin á þessum málum bendir eindregið til að notkun lífeldsneyts auki útblástur gróðurhúsalofttegunda. Gera má ráð fyrir að hinn aukni útblástur vegna notkunar lífeldsneytis árið 2020 verði um 4% eða sem samsvarar því að bæta 12 milljónum bifreiða við á vegi álfunnar. Í kjölfarið hefur meðal annarra Marie C. Donnelly framkvæmdastjóri endurnýjanlegrar orku hjá framkvæmdastjórn ESB sagt að skyldan til íblöndunar verði einfaldlega afnumin.
Ekki ætlar núverandi ríkisstjórn Íslands að fara frá völdum án þess að lögin um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi verði felld úr gildi? Frumvarp um afnám ákvæðanna um endurnýjanlegt eldsneyti var lagt fram á síðasta þingi og svo aftur á þessu þingi en hefur ekki komist á dagskrá.