Vefþjóðviljinn 102. tbl. 20. árg.
Enn fjölgar forsetaframbjóðendunum.
Nú hefur öflugur frambjóðandi bæst í hópinn. Jón Gunnarsson formaður atvinnuveganefndar Alþingis var að tilkynna um framboð sitt, frammi fyrir fullum sal sem hann leigði á Landspítalnum við Hringbraut.
Baráttumál Jóns eru auðlinda- og umhverfismál. Hann hyggst sem forseti berjast fyrir því, óháð vilja réttkjörins Alþingis og ríkisstjórnar hverju sinni, að umhverfissinnum takist ekki að stöðva áætlun Jóns um áframhaldandi virkjanir í öllum vatnsföllum með meira rennsli en tvo lítra á klukkustund. Fyrir þessu hefur Jón barist undanfarinn áratug og skrifaði einmitt um það söngleikinn Sveitin með gráa kettinum sem verðlaunanefnd leikskálda hefur síðan sett upp á hverju ári í suðurkjördæmi.
Auk þessa ætlar Jón berjast fyrir því sem forseti að stjórnarskránni verði breytt, en þó eingöngu þannig að fylgt verði hugmyndum sem komu fram á hugarflæðifundi sem efnt var til í matarhléi á aðalfundi Hvals hf. nýlega.
Er Jón búinn að missa vitið?
Nei, auðvitað er Jón ekki farinn í forsetaframboð með þessi baráttumál. Raunar er hann alls ekki farinn í framboð. En ef hann byði sig fram og ætlaði sér að tala sem forseti fyrir einhverjum öðrum áherslum en ríkisstjórn og Alþingi gera hverju sinni, til dæmis í umhverfismálum, auðlindamálum, landnýtingarmálum, skattamálum, stjórnarskrármálum eða einhverjum öðrum málum, þá væri hann haldinn mjög alvarlegum misskilningi.
En fréttamenn myndu auðvitað ekki láta hann komast upp með svona misskilning á forsetaembættinu.
Þeir sem vilja berjast fyrir sannfæringu sinni í slíkum málum eiga marga kosti í íslensku lýðræðisþjóðfélagi. Þeir geta boðið sig fram til þings, þeir geta skrifað greinar í blöð og tímarit, gefið út bækur, haldið fundi og margt fleira.
Það er eiginlega bara eitt sem þeir geta ekki gert.
Þeir geta ekki farið í forsetaframboð. Forseti Íslands getur ekki talað fyrir annarri stefnu en stjórnvöld hafa hverju sinni.
Þeir sem ekki geta greint á milli þess hvaða baráttumál geta réttlætt þingframboð og hvaða mál geta réttlætt forsetaframboð, eiga kannski erindi í hvorugt.