Föstudagur 8. apríl 2016

Vefþjóðviljinn 99. tbl. 20. árg.

Þegar opnuð er ný verslun einhvers staðar, eða nýtt fyrirtæki byrjar að veita þjónustu á sviði þar sem áður var aðeins einn, þá tala fréttamenn stundum við keppinautinn sem fyrir var. Hann notar næstum alltaf sama svarið: Við fögnum samkeppninni.

Allir vita að þeir fagna ekki samkeppninni. Hvers vegna ættu þeir að gera það?

Sýndarmennska af sama toga var algeng í Alþingishúsinu í vikunni. Hver stjórnarandstæðingurinn á fætur öðrum sagðist vera „með sorg í hjarta“ yfir málavöxtum og sérstaklega með sorg í hjarta vegna orðspors Íslands erlendis.

Hverjum dettur í hug að stjórnarandstaðan hafi verið með „sorg í hjarta“? Með ótrúlegum klaufaskap hafði forsætisráðherrann komið sér í óverjanlega aðstöðu sem eðlilega leiddi til afsagnar hans. Og það var meira að segja reynt að hræða ríkisstjórnina til að flýta kosningum. Auðvitað hafa stjórnarandstæðingar ekki verið „með sorg í hjarta“ yfir þessu. Enda ætlast enginn til þess af þeim.

En geta þeir ekki hafa verið „með sorg í hjarta“ yfir því hvað vandræði ráðherrans spilltu heiðri Íslands erlendis?

Ef einhver trúir því, þá ætti hann að spyrja stjórnarandstöðuna hvað hún hafi gert til að bæta það orðspor.

Hér var staddur mikill fjöldi erlendra fréttamanna, enda höfðu erlendir fjölmiðlar fengið þá mynd, að rétt eins og Assad og vinir Pútíns og Kínaforseta geymdi íslenski ráðherrann stórfé á leynireikningum. Ætli íslenskir stjórnarandstæðingar hafi sagt erlendum fréttamönnum að þótt þeir væru auðvitað ekki ánægðir með að almenningur hefði ekki vitað af erlendu félagi eiginkonu ráðherrans og hagsmunum þess í slitabúum bankanna þá yrði umheimurinn að átta sig á þar hefði ekki verið geymt illa fengið fé heldur erfðafé eiginkonunnar og að svo virtist sem félagið hefði verið talið fram til skatts? Um leið og þessi atriði liggja fyrir blasir við að engin ástæða er til að nefna Sigmund Davíð og Ísland í sömu andrá og Pútín og Rússland, Assad og Sýrland, Xi og Kina. Þegar deilan snýst fyrst og fremst um hagsmunaskráningu og hugsanlegt vanhæfi í bankauppgjörsmálum hér heima, dettur engum í hug að blanda Íslandi og Sýrlandi saman.

Þeir sem hafa haft raunverulegar áhyggjur af orðspori Íslands hefðu getað séð til þess að þetta kæmist skýrt á framfæri. Þeir hefðu ekki þurft að draga úr gagnrýni sinni á Sigmund vegna annarra atriða málsins, þótt þeir hefðu lagt áherslu á að þessi atriði kæmust til skila. En kannski hafa stjórnarandstæðingar gert sitt til að fræða erlenda blaðamenn um þetta, en það engan árangur borið. Það er kannski skýringin á sorginni.

Annars er „sorg“ orð sem menn eiga ekki að gengisfella.