Vefþjóðviljinn 97. tbl. 20. árg.
Þótt öllum hafi verið ljóst að vandamál undanfarinna vikna í stjórnmálunum var hegðun eins manns, ekki síst í eigin ranni, er það skyndilega „ekki nóg“ að hann segi af sér. Nú þurfa allir aðrir ráðherrar að gera það líka. Og það er „ekki nóg“. Lýðræðislega kjörið Alþingi, sem hefur fullt umboð kjósenda í landinu, það verður líka að fara heim, segja þeir sem nú berja „ekki nóg“ trommurnar.
Hvað var það sem menn ætluðu að „læra af hruninu“? Er ekki ágætt að fylgja einfaldlega skýrri stjórnskipun landsins. Alþingi hefur fullt umboð og ríkisstjórnin líka. Það umboð missa menn í kosningum en ekki á útifundum.
Fjölmiðlar senda út látlaus viðtöl við stjórnarandstæðinga. Í þeim viðtölum er sjaldan spurt hvort rétt hefði verið af ráðherrum í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að biðjast lausnar þegar ekki einn heldur tveir Icesave-samningar þeirra höfðu verið felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er líka sjaldan spurt hvort sú ríkisstjórn hefði átt að biðjast lausnar þegar fimm stjórnarþingmenn, eða hvað þeir voru margir, voru farnir úr stjórnarliðinu. Þegar stjórnin varð að treysta á Guðmund Steingrímsson og Róbert Marshall til að halda völdum.
Það er ekki heldur mikið talað um taugaveiklunina sem ríkti vorið 2013, örfáum vikum fyrir þingkosningar, þegar Þór Saari lagði fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Það þóttu ofboðsleg skemmdarverk. Núna situr ríkisstjórn sem nýtur stuðnings 38 lýðræðislega kjörinna Alþingismanna. Og það er reynt að öskra hana í burtu.