Þriðjudagur 5. apríl 2016

Vefþjóðviljinn 96. tbl. 20. árg.

Landmannalaugar.
Landmannalaugar.

Gamla góða.

Við bankahrunið og atlögu ofbeldismanna að alþingi stóð hún eins og klettur í hafinu.

Hún opnaði leið þegar ítrekað stóð til að leggja Icesave klyfjarnar á landsmenn.

Hún girðir fyrir að í óðagoti sé mögulegt að leggja lýðveldið inn í ríkjasamband eins og hvern annan grip í sláturhús.

Þetta gerir hún meðfram því að tryggja mönnum friðhelgi einkalífs, eignarrétt, atvinnufrelsi og önnur helstu mannréttindi í farsælasta lýðræðisríki sögunnar.

Hún hefur sjálf varist verstu tilraunum til að þynna þessi mannréttindi og kollvarpa stjórnskipan landsins.

Í dag bauð hún svo upp á hæfilegt orðalag sem reyndur forseti gat nýtt til að fipa forsætisráðherra sem ætlaði einn og óstuddur að sækja sér þingrofsskjöl eins og hvert annað barefli til að lemja á 37 þingmönnum í eiginn stjórnarmeirihluta.

Gamla góða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.