Helgarsprokið 3. apríl 2016

Vefþjóðviljinn 94. tbl. 20. árg.

Í svokölluðum skoðunar-dálki Fréttablaðsins í gær skrifar einn af fréttamönnum Stöðvar 2 um umræðuna um eignir stjórnmálamanna í erlendum félögum. Hann segir að tvær hliðar séu á málinu en aðeins önnur þeirra hafi fengið mikla athygli. Það sé nefnilega kostur að stjórnmálamenn séu efnaðir, því þá sé erfiðara að hafa áhrif á þá.

Fjársterkur einstaklingur sem fer í stjórnmál er ekki fjárhagslega háður öðrum. Minni líkur eru á því að hægt sé að hafa áhrif á viðkomandi með styrkjum eða gjöfum. Bæði þegar beinir styrkir eru annars vegar en einnig þegar um er að ræða mögulegar hagsbætur í framtíðinni.

Er þetta rétt? Bæði og.

Það skiptir mestu ef ekki öllu hvernig menn eru gerðir. Það að maður sé efnaður þýðir ekki að ekki sé hægt að „kaupa hann“. Það þýðir líklega aðeins að það gæti verið dýrara að kaupa hann.

Svo er misjafnt eftir einstaklingum hvaða áhrif þeirra eigin efnahagur hefur á þá. Einn efnaður maður verður kannski ónæmur fyrir peningum og hugsar bara um aðra hluti í lífinu. Annar er kannski orðinn efnaður af því að hann hugsar ekki um neitt annað en að efnast, og efnast svo örlítið meira. Sá er kannski alltaf með augun opin fyrir tilboðum.

Það að stjórnmálamaður sé efnaður getur haft aðra kosti.

Það hefur sína kosti að stjórnmálamaður sé ekki of háður því að fá launin sín um hver mánaðamót.

Á hverjum tíma talar stjórnarandstaðan um það að ríkisstjórnin verði að fara frá og „þjóðin fái að segja skoðun sína“. En auðvitað vita stjórnarandstöðuþingmenn að þar með er þeirra eigið starf í hættu. Menn þurfa að borga vísareikninginn, afborguna af íbúðinni eða húsaleiguna, framfleyta fjölskyldunni og svo framvegis. Það er ekki nema mannlegt þótt sjórnmálamaður, eins og allir aðrir, hugsi um þetta sem tekur ákvörðun um það hvort hann setur starfið sitt í hættu.

Það er ekki æskilegt að stjórnmálamenn verði of einsleitur hópur, hvort sem er í efnahagslegu tilliti eða öðru. Það, að stjórnmálamaður réði ekki við að missa skyndilega launin fyrir stjórnmálastarfið, getur hins vegar gert honum erfiðara fyrir að „láta samviskuna ráða“. Stjórnmálamaður sem hefur að öðru að hverfa er í betri stöðu en hinn sem á allt undir því að fá áfram þingmannslaunin eða sveitarstjórnarlaunin.

Hér skiptir margt annað en efnahagur máli. Menn þurfa ekki að eiga digra sjóði til að vera sæmilega óháðir vinnuveitanda sínum. Þeir, sem vegna til dæmis hæfileika eða menntunar, sjá fram á að geta fengið sæmilegt starf annars staðar, hafa miklu minni áhyggjur af atvinnumissi en þeir sem halda að þeir muni aldrei fá annað gott tækifæri.

En mestu skiptir auðvitað hvernig menn eru gerðir. Er sá efnaði skilningslaus á hag þeirra sem búa við verst kjör? Er stjórnmálamaður, sem sjálfur er alltaf í fjárhagsvandræðum, skilningslaus á miklvægi eignaréttar og frjáls atvinnulífs? Sjá menn annað og meira en eigin hag og þeirra sem eru í svipaðri stöðu? Þetta er persónubundið.

Margir eru mjög ákafir í að reglur gildi um styrki til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna.

Raunar er það svo að slíkir styrkir eru fjarri því að vera eins hættulegir og margir halda. Og auðvitað því hættuminni sem þeir eru fleiri. Því stærri sem stjórnmálaflokkur er, því minna máli skiptir hver einstakur styrkveitandi.

Það er mjög ósennilegt að menn styrki stjórnmálaflokk til þess að kaupa sér áhrif á ákvarðanir flokksins. Enn ólíklegra er að það tækist, nema þá líklega helst ef flokkurinn fær svo fáa aðra styrki að hann má alls ekki missa þennan. Styrkir eru vafalaust langoftast veittir af áhuga á almennum framgangi hugmynda.

Mjög margir hafa nefnilega mikinn áhuga á framgangi stjórnmálahugmynda sinna, eða telja mikilvægt að berjast gegn uppgangi einhverra annarra hugmynda. Það er svo bara misjafnt hvað menn geta og vilja til að taka þátt í þeirri baráttu. Einum finnst sjálfsagt að fara á Austurvöll í hvaða veðri sem er og öskra þar á Alþingishúsið, en hefur ekki í sér að skrifa blaðagrein. Annar skrifar í hverjum mánuði og hamast á Facebook þess á milli, en myndi aldrei tíma að leggja tíuþúsundkall í baráttuna. Þriðji vill ekki sjá af dýrmætum tíma sínum en munar ekki neitt um að borga hundraðþúsundkall. Er hættur að hugsa um hann mínútu eftir millifærsluna. Fjórði gerir ekkert af þessu en hringir vikulega í Útvarp Sögu.

Einn munar ekkert um tíma, fyrir annan er auðveldasti hlutur í heimi að henda í eina grein og þeim þriðja er ósárt um peninga. Einhverjum öðrum er svo alveg sama þótt hann standi í hvössum deilum á netinu og fái þar alls kyns óþverra yfir sig.

Af einhverjum ástæðum eru margir sannfærðir um að einn í þessum hópi sé varhugaverður maður sem hafi illt í hyggju. Hinir séu hins vegar hugsjónamenn.

En hver af þessum er nú mikilvægastur fyrir stjórnmálaflokk? Fyrir stjórnmálaflokk er ómetanlegt að hafa ritfæra og vinsæla pistlahöfunda til að tala vel um baráttumál flokksins og gagnrýna andstæðinga hans. Fyrir stjórnmálaflokk getur verið ómetanlegt að fólk sé tilbúið að öskra á andstæðingana og standa á mótmælafundum við flest tækifæri. Fyrir stjórnmálaflokk er ómetanlegt að menn séu tilbúnir að berjast við netsóða hinna flokkanna, svo þeir séu ekki einir um hituna.

Auðvitað finnst stjórnmálaflokki líka fínt að fá fjárstyrkinn. En hann er fjarri því að vera ómetanlegur.

Samt er það svo að margir hafa fjárstyrkina á heilanum, vilja skrá þá, birta þá, og gera allt tortryggilegt í kringum þá. En hafa engar áhyggur af áhrifum allra hinna á stefnu einstakra flokka eða ákvarðanir forystumanna.

Margir eru mjög ákafir í að stjórnmálamenn birti upplýsingar um eignir sínar. En slíkir listar eru gagnslausir ef ekki eru birtar upplýsingar um skuldir þeirra. Þótt margir hafi áhuga á eignum sínum þá eru það skuldirnar sem geta orðið klafi. Stjórnmálamaður getur til dæmis verið í þeirri stöðu að bankinn getur komið honum í gjaldþrot hvenær sem er. Eða tekið af honum íbúðina.

Þeir sem hafa miklar áhyggjur af því að örlítill fjárstyrkur geri menn háða styrkveitandannum berjast af einhverjum ástæðum sjaldan fyrir því að skuldir stjórnmálamanna verði gerðar opinberar. Stjórnmálamenn mega berjast fyrir greiðsluaðlögun, afskriftum, banni við nauðungaruppboðum, „leiðréttingunni“, „afnmámi verðtryggingar“ og hverju sem er, án þess að siðvæðingarmenn krefjist þess að þeir upplýsi um það hvort þessi atriði hefðu áhrif á fjárhag þeirra sjálfra. En ef útgerðarfyrirtæki hefur styrkt prófkjörsframbjóðanda um fimmtíuþúsund krónur þá eru þeir sannfærðir um að þar sé komin skýringin á því að bölvaður mútuþeginn vill ekki afnema kvótakerfið.

Með þessu er ekki sagt að stjórnmálamönnum eigi að vera skylt að upplýsa um skuldir sínar eða önnur fjármál. Það er bara merkilegt hversu margir þeirra, sem eru sannfærðir um að eignir manna ráði afstöðu þeirra hafa litlar áhyggjur af því að skuldir manna geti gert það líka.