Fimmtudagur 10. mars 2016

Undanfarna daga hafa stjórnmálamenn, álitsgjafar, verkalýðsleiðtogar, talsmenn félags bifreiðaeigenda og margir fleiri verið ævareiðir við stjórnir tveggja hlutafélaga. Stjórnirnar tilkynntu nefnilega að þær myndu leggja til við aðalfund að greiddur yrði út nokkurra milljarða króna arður til hluthafa.

Þetta vakti mikla reiði. Mikið hefur verið talað um græðgisvæðingu, árið 2007 og stjórnendur sem hafa engan skilning á þjóðfélaginu. Að lokum mun hafa farið svo að hluthafar tóku í taumana og nú er gert ráð fyrir mun lægri arðgreiðslum.

Hvernig var aftur með spekingana sem sálgreindu viðskiptalífið eftir bankahrunið 2008? Fannst þeim ekki stór hluti af skýringunni á því hvernig fór hafa legið í því að konur hefðu ekki ráðið nógu miklu? Er ekki búið að skrifa og skrifa um það hversu „önnur menning“ ríki í stjórnum fyrirtækja ef „raddir kvenna“ heyrast þar við fundarborðið? Lét Alþingi ekki sérstaka sérfræðinganefnd fjalla um það hvaða þátt „karlmennska“ hefði átt í bankahruninu?

En nú er einmitt búið að ráða bót á þessari skelfilegu meinsemd. Vinstristjórnin setti lög um að eigendur fyrirtækja yrðu að velja konur í stjórn fyrirtækja sinna og núverandi ríkisstjórn hefur ekki haggað við þeim lögum frekar en neinum öðrum sem vinstristjórnin setti. Þremur árum eftir að vinstristjórnin lét af völdum eru „súkkulaðikleinulögin“ enn í gildi og þau munu enn verða í gildi þegar vinstristjórn Pírata tekur við völdum á næsta ári.

Hvernig stendur á því að stjórnir fyrirtækja hegða sér enn jafn hneykslanlega að mati álitsgjafanna og stjórnmálamannanna, eftir að búið er að þvinga eigendur fyrirtækjanna til að velja konur í stjórn? Getur kannski verið að Konur séu bara ekkert betri en Karlar við að stjórna fyrirtækjum? Hvað segir sérfræðihópur þingmannanefndar rannsóknarnefndar allsherjarnefndar Alþingis við þessu?