Vefþjóðviljinn 68. tbl. 20. árg.
Michael Bloomberg fyrrum borgarstjóri New York hefur fallið frá því að bjóða sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna sem „óháður“ frambjóðanda. Hann segist ekki vilja spilla fyrir sigurmöguleikum Hillary Clinton gegn frambjóðanda Repúblíkana.
Bloomberg er nokkurs konar lífstílssósíalisti, einn af þessum afskiptasömu stjórnmálamönnum sem eru sífellt að skipa fólki að „tileinka“ sér einhvern lífsstíl. Það er þó vægt til orða tekið því að mestu leyti vilja þessi stjórnmálamenn sjálfir ákveða lífsstíl almennings, hvernig hann fer ferða sinna, hvernig hann losar sig við sorp, hve þétt hann býr og hvað hann etur, drekkur og reykir.
Frægasta lífsstílsþvingun Bloombergs er sjálfsagt tilraun hans til að banna stór drykkjarmál, The Sugary Drinks Portion Cap Rule. Með banninu var ætlað að banna veitingasölum í New York borg að bera fram og selja gosdrykki í málum sem væru stærri en hálfur lítri.
Dómstólar í New York ríki felldu bannið hins vegar úr gildi þar sem heilbrigðisnefnd borgarinnar hefði farið út fyrir valdsmörk sín.
Reglugerðasnatar líta líka yfirleitt framhjá því hvaða furðuáhrif svona tilskipanir geta haft. Hvað gerir maðurinn sem er vanur að fá sér 600 ml gosglas með nachosinu þegar búið er að banna svo stór glas? Lætur hann 500 ml glasið hans Bloombergs duga eða fær hann sér kannski tvö slík?