Vefþjóðviljinn 66. tbl. 20. árg.
Eigendur hlutafélaga bera ekki ábyrgð á skuldum þeirra nema um það sé sérstaklega samið við lánadrottna. Ábyrgð hluthafa er takmörkuð. Enda er það markmiðið með hlutafélagaforminu að menn geti stundað atvinnurekstur án þess endilega að leggja aðrar eigur sínar, til að mynda heimili, að veði.
Þeir sem eiga viðskipti við hlutafélög eiga að vita þetta. Það er því sjálfsagður þáttur í viðskiptum við slík félög að kanna viðskiptasögu þeirra og forsvarsmanna þeirra. Menn geta kallað eftir slíkum upplýsingum áður en viðskipti eiga sér stað. Enginn er neyddur til að eiga viðskipti við hlutafélag sem hann þekkir hvorki haus né sporð á. Enginn neyðist til að afhenda hlutafélagi verðmætar vörur eða þræla fyrir það án þess að ganga úr skugga um að félagið sé fjárhagslega traust og eigendur þess engir glæframenn.
Auk þess mun nú hver sem er getað skoðað ársreikning hvaða fyrirtækis sem er mörg ár aftur í tímann án þess að viðkomandi fyrirtæki hafi gefið til þess leyfi. Það kostar einungis nokkrar krónur að fá slíkar upplýsingar. Þær eru sendar samdægurs í tölvupósti.
Það er hins vegar í takt við tíðarandann að menn telji það hlutverk ríkisins að passa upp á að enginn tapi á viðskiptum við hlutafélög.
Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokksins er til að mynda þeirrar skoðunar að ríkið eigi að vera barnfóstra atvinnulífsins og skilja þá frá sem hafa tengst fyrirtækjum sem af einhverjum ástæðum hafa lagt upp laupana.
Í frumvarpi sem Karl hefur lagt fram – og hefur lýst yfir að sé hið fyrsta af 11 slíkum frumvörpum – um svonefnt kennitöluflakk er gert ráð fyrir að mönnum verði bannað að stofna fyrirtæki hafi þeir tengst tveimur fyrirtækjum sem hafa orðið gjaldþrota á ákveðnu tímabili. Svona rétt eins og gjaldþrot hlutafélags séu glæpur sem beri að refsa fyrir.
Enginn vafi er á því að forhertir svikahrappar munu finna leið framhjá þessu banni með því að fá aðra slíka eða hrekklaus góðmenni til að leppa fyrir sig. Heiðarlegir menn munu hins vegar halda að sér höndum við atvinnurekstur á meðan þeir taka refsingu Karls út. Venjulegt fólk mun veigra sér við þátttöku í rekstri.
Nú eru gjaldþrot auðvitað á margan hátt hvimleið því þau verða ekki nema félög geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. En því má ekki gleyma að gjaldþrot gegna ákveðnu hlutverki. Þau senda mönnum skilaboð um að snúa sér að einhverju öðru sem gæti gengið betur. Rétt eins og hagnaður hvetur menn áfram á sömu braut beinir tap mönnum annað.
Í greinargerð með frumvarpi Karls segir:
Starfshópur á vegum ríkisskattstjóra hefur á undanförnum missirum kannað umfang skattaundanskota í atvinnustarfsemi hér á landi. Niðurstaða þeirrar könnunar er að um 80 milljarða kr. vanti upp á þær skatttekjur sem umsvif í þjóðfélaginu gefa vísbendingar um hverjar ættu að vera.
Hve stór hluti af þessum 80 milljörðum ætli tengist „kennitöluflakki“? Um það eru hvorki upplýsingar né ágiskanir í greinargerðinni. Það er lágmarkskrafa þegar menn telja ástæðu til að breyta lögum í landinu að þeir hafi gert örlitla tilraun til að meta forsendurnar fyrir þeim breytingum.
Og þeir forsvarsmenn hlutafélaga sem skila ekki vörslusköttum til ríkisins eru nú þegar undanbragðalaust dregnir fyrir dóm þar sem þeim er gerð þung refsing og geta þar með ekki verið í forsvari fyrir hlutafélag um tíma.