Miðvikudagur 2. mars 2016

Vefþjóðviljinn 62. tbl. 20. árg.

Sýslumaður lagði í dag lögbann við því að „verkfallsverðir“ hindruðu yfirmenn Íslenska álfélagsins við uppskipun. Það þarf ekki að koma á óvart enda regla að yfirmenn mega ganga í störf undirmanna sinna í verkfalli.

Þó mun þetta sjálfsagt koma mörgum á óvart. Í sérhönnuðum verkföllum ríkisstarfsmanna í fyrra, þar sem verkalýðsfélögin reyndu að ná fram hámarksóþægindum fyrir almenna borgara með eins litlum tilkostnaði verkfallsmanna og hægt væri, virtust yfirmenn alls ekki þora að ganga í störf verkfallsmanna.

Og ekki datt ráðherrum í hug að sjá til þess að reynt yrði að minnka óþægindi fólks af verkfallinu með slíku.

Auðvitað áttu til dæmis sýslumenn að létta óþægindum af fólki eins og þeir gátu. Sýslumenn máttu gera allt það sem verkfallsmenn neituðu að gera. Þeir hefðu mátt gefa út öll leyfi, gera fjárnám, halda uppboð, þinglýsa kaupsamningum og svo framvegis. En ekkert af þessu gerðu þeir. Og ekki sagði ráðuneytið þeim að gera neitt slíkt.

Sýslumaðurinn sem í dag lagði lögbann við „verkfallsvörslunni“ gegn yfirmönnunum í álverinu, lét sér nægja að gefa út eitt skemmtanaleyfi þegar hans eigin starfsmenn voru í verkfalli. Stjórnmálamenn og fjölmiðlar hafa ekki krafið sýslumenn landsins svara um það hvernig þeir hafi reynt að halda embættunum gangandi á meðan verkföll þar stóðu í fyrra.

Auðvitað gátu sýslumennirnir sjálfir ekki afkastað öllu sem verkfallsmenn hefðu gert. En þeir hefðu getað haldið uppi lágmarksþjónustu og þannig tryggt að enginn tæki embættin alveg úr sambandi.

Í næstu verkföllum opinberra starfsmanna verða ráðherrar að vera betur vakandi fyrir því að forstöðumenn stofnana geri þá skyldu sína að lágmarka óþægindi fólks af verkföllum.

Og af því talað er um „verkfallsvörslu“ þá mætti spyrja hvað menn segðu ef álverið hefði ekki leitað lögbanns heldur einfaldlega safnað liði. Ef álversmenn hefðu mætt á bryggjuna með hundruð fílefldra manna og hafið uppskipun, hvað hefðu menn sagt þá? Jú, þá hefðu menn sagt að menn eigi ekki að taka rétt sinn með valdi. En það er einmitt það sem „verkfallsverðir“ gera.