Mánudagur 29. febrúar 2016

Vefþjóðviljinn 60. tbl. 20. árg.

Vikan.
Vikan.

Leik- og söngkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir mun hafa gengið út úr spjallþætti Ríkissjónvarpsins á föstudagskvöldið, undir skemmtiatriði hljómsveitarinnar Reykjavíkurdætra. Hún gaf á þessu þá skýringu að sér hefði ofboðið atriðið. Um þetta sköpuðust umræður, sem urðu að mörgu leyti dæmigerðar fyrir íslenska þjóðmálaumræðu.

Það er virðingarvert að láta ekki bjóða sér gróft og ósmekklegt atriði eins og Ágústa Eva hefur lýst að sér hafi fundist atriði þeirra Reykjavíkurdætra.

Þegar menn velta fyrir sér hvort atriðið hafi verið gróft og ósmekklegt skiptir ekki minnstu máli hvar það var sýnt. Það sem er gott og gilt á krá, á ekki endilega við í kirkju. Þess sem menn geta vænst á rokktónleikum á vafasamri knæpu eiga þeir kannski ekki að þurfa að búast við á bingói í Tónabæ. Og öfugt.

Og þegar Ríkisútvarpið segist halda úti þætti sem sé „á jákvæðum og uppbyggilegum nótum“ og sendir hann út á þeim tíma þegar gert er ráð fyrir því að á þúsundum heimila sitji fjölskyldan saman við tækið, takmarkast kannski það sem hægt er að bjóða upp á í þættinum.

Eðlileg umræða um „útgöngu Ágústu Evu“ hefði snúist um hvort þetta efni hefði verið boðlegt í þessum þætti, sem sýndur er á ákveðnum tíma undir ákveðnum formerkjum.

En auðvitað þurftu íslenskir umræðuspekingar að sýna hversu mikið er í þá spunnið.

Hver var fyrsta röksemdin sem umræðuspekingum datt í hug?

Jú, Silvía Nótt. 

Það hvernig Ágústa Eva hefði hagað sér eða ekki hagað sér fyrir tæpum áratug var auðvitað málið. Guðmundur Andri Thorsson fór til dæmis að skrifa á netið um að Ágústa Eva hefði ekki mætt til að gefa eiginhandaráritanir á bensínstöð í Ártúnsbrekku fyrir tíu árum. Svipaðan söng sungu fleiri spekingar. Silvía. Til hamingju Ísland.

Og svo fór einhver að réttlæta atriðið með því að fleiri hefðu nú hneykslað. Björk Guðmundsdóttir. Megas. Bubbi Morthens.

Það geta allir hneykslað. Raunveruleg geta felst í öðru. Þessi þrjú sem talin voru upp hafa öll hneykslað en þau hafa líka margt gert sem mun lifa óháð því hvort einhver var einhvern tíma reiður. Það kann að breytast en Reykjavíkurdætur hafa enn ekki samið Reykjavíkurnætur.