Vefþjóðviljinn 59. tbl. 20. árg.
Meðal þess sem sett var í lög á vinstristjórnarárunum 2009-2013 var nýungin „endurupptökunefnd“. Hún var kynnt sem mikil réttarbót. Nú skyldi verða auðveldara að fá dóma Hæstaréttar Íslands endurupptekna, ef vera kynni að þeir hefðu verið rangir.
Málið lögðu fram þingmennirnir Álfheiður Ingadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Atli Gíslason, Árni Þór Sigurðsson, Margrét Tryggvadóttir, Skúli Helgason og Þráinn Bertelsson. Úrvalshópur þingmanna.
Og hvernig reynist nú útkoman? Hvaða afleiðingar hefur réttarbótin svo í raun?
Hæstiréttur dæmdi í síðustu viku í máli sem flutt var í framhaldi af niðurstöðu endurupptökunefndarinnar nýju. Fjölmiðlar hafa fjallað talsvert um niðurstöður dómsins en ekki dregið allar augljósar ályktanir af honum. Og þær eru afgerandi.
Í fyrsta lagi slær Hæstiréttur út af borðinu það ákvæði í nýju lögunum sem sagði að niðurstaða endurupptökunefndar, að mál skyldi endurupptekið, yrði til þess að fyrri dómur félli úr gildi. Það samrýmist ekki stjórnarskránni.
Þetta skildu flestir. Þingmenn sem börðust fyrir málinu og ýmsir aðrir sögðu að þetta væri ekki svo mikið vandamál, eða breytti að minnsta kosti ekki aðalatriðinu sem væri endurupptökunefndin sjálf. Eldri dómur stæði þá bara þar til búið væri að dæma nýjan.
En Hæstiréttur sagði fleira. Hann sagði líka að dómstólar tækju endanlega ákvörðun um það hvort endurupptökunefndin hefði komist að réttri niðurstöðu um það hvort dómsmál skyldi endurupptekið.
Hvað þýðir þetta?
Þetta þýðir að þótt endurupptökunefnd komist að þeirri niðurstöðu að mál skuli endurupptekið, verður það ekki til þess að nýr dómur verði kveðinn upp í málinu. Málið fer einfaldlega fyrir dómstóla sem munu leggja sjálfstætt mat á það hvort ástæða sé til að endurupptaka málið. Niðurstaða endurupptökunefndar, um að mál skuli endurupptekið, skiptir því sáralitlu máli.
Hvernig voru reglurnar áður en þingmennir lögðu fram frumvarpið sitt? Þá var það þannig menn gátu sótt um endurupptöku til Hæstaréttar. Hæstiréttur átti endanlegt mat á því hvort ástæða væri til að taka mál upp að nýju. Þetta er með öðrum orðum óbreytt.
En hefur þá ekkert breyst með nýju lögunum?
Jú. Orðið hefur mikil breyting.
Nú þurfa menn fyrst að fara til endurupptökunefndar og fá samþykki hennar fyrir endurupptöku. Ef hún samþykkir, þá fer málið til dómstóla sem leggja mat sitt á endurupptökubeiðnina. Ef endurupptökunefndin hafnar endurupptökubeiðni, þá fer málið ekki lengra og beiðnin er úr sögunni.
Fyrir lagabreytingu þurftu menn að fá samþykki Hæstaréttar fyrir endurupptöku. Nú þurfa menn samþykki endurupptökunefndar og Hæstaréttar. Það er nú réttarbótin sem þingmennirnir héldu að þeir væru að setja í lög. Þeir innleiddu nýja hindrun í veg þeirra sem vilja fá endurupptöku.
Margir þessara sömu þingmanna vilja endilega fá samþykkta nýja stjórnarskrá. Hún á líka að innleiða ótal réttarbætur. Núverandi ríkisstjórnarflokkar ætla víst að láta margt eftir þeim þar, eins og annars staðar.
Að sjálfsögðu voru lögin um endurupptökunefnd samþykkt mótatkvæðalaust. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki látið sér detta í hug að afnema lögin, ekki frekar en neitt annað sem samþykkt var á árunum 2009-2013.