Vefþjóðviljinn 352. tbl. 19. árg.
Ofstopinn og æsingurinn í þeim sem vilja að ekkert einasta lát verði á fjáraustri skattgreiðenda í hítina í Efstaleiti 1, og vilja í raun helst að starfsmenn Ríkisútvarpsins geti gengið að eigin vild í ríkiskassann, því ekki nægir þeim að mega fara með opinberan fjölmiðil eins og þeir eigi hann sjálfan, er að verða rannsóknarefni.
Enn meira rannsóknarefni er ákafi og örvænting núverandi menntamálaráðherra í baráttunni fyrir því að þessir menn verði ekki fyrir vonbrigðum.
Síðustu daga hafa alls kyns ótrúlegar baráttuaðferðir komið í ljós. Forstjóri Ríkisútvarpsins, sem telur greinilega að Alþingi eigi að lúta vilja stofnunarinnar en ekki öfugt, segir fullum fetum að stjórnendur stofnunarinnar hafi við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs ekki unnið eftir gildandi lögum heldur þeim lagabreytingartillögum sem þeir segja að menntamálaráðherra hafi lofað að beita sér fyrir.
Þessi yfirlýsing er ótrúleg, þótt fréttamenn muni auðvitað gæta þess að vekja ekki athygli á því, rétt á meðan reynt er að hræða stjórnvöld landsins til uppgjafar.
Hvar eru allir þeir sem hafa undanfarin ár talað sig máttlausa um „ráðherraræði“? Hvar eru þeir sem hafa talað um að „löggjafarvaldið sé í vasanum á framkvæmdavaldinu“?
Nú er hreinlega látið eins og ekki eigi að fylgja gildandi lögum heldur einhverju sem ráðherra á að hafa sagt við einn ríkisforstjóra. Það er látið eins og það væru alger svik ef alþingi breytti ekki lögum í samræmi við vilja þessa eina ráðherra.
Það er einfaldlega þannig að gildandi lög gera ráð fyrir örlítilli lækkun á framlagi skattgreiðenda í hítina. Lækkunin er sáralítil, en þó lækkun. Þeir sem krefjast þess að framlag skattgreiðenda lækki ekki neitt, þeir vilja fá þessum lögum breytt.
Menn ættu að ímynda sér að staðan væri öfug. Að lög gerðu ráð fyrir aukningu framlaga í hítina í Efstaleiti en ráðherra hefði sagt að hann vildi lækka framlögin. Dettur einhverjum í hug að fréttamenn létu eins og þá yrði bara að lækka framlögin því annað væru svik?
Dettur einhverjum í hug að forstjóri Ríkisútvarpsins myndi láta vinna fjárhagsáætlun byggða á orðum ráðherrans en ekki gildandi lögum?
Auðvitað ekki.
En nú finnst fréttamönnum slíkt eðlilegt.
Þeir spyrja og spyrja hvort vilji ráðherrans nái ekki örugglega fram að ganga. Hvort það séu ekki svik, ef þingið breytir ekki þeim lögum sem ráðherrann er búinn að lofa forstjóranum að breyta.