Vefþjóðviljinn 344. tbl. 19. árg.
Svandís Svavarsdóttir fyrrverandi umhverfisráðherra tekur núverandi ríkisstjórn á beinið í grein um loftslagsmál í Fréttablaðinu í dag.
Það þarf meira en verkefnalista og góðar óskir í loftslagsmálum. Það þarf að tala skýrt, hafa metnaðarfull markmið og leggja fé og krafta til rannsókna og þróunar í þágu loftslagsvænni tækni og atvinnustarfsemi. Það þarf stórhug í loftslagsmálum, róttækni og kjark. Við svo stórt verkefni dugar ekkert minna.
Já það væri allur munur ef við stjórnvölinn væri ekki fólk með „verkefnalista“ heldur „metnaðarfull markmið.“ Þá kæmist nú skriður á mál. Þá myndi skipta sköpum að það sé „talað skýrt“ í stað þess að bera fram „góðar óskir.“ Óskir auka mengun en tal dregur úr henni.
Nú svo myndi draga mjög úr losun gróðurhúsalofttegunda ef ráðamenn hefðu „stórhug“, að ekki sé minnst á „róttækni og kjark.“
Þannig leysa menn loftslagsvandann.
Verst að ríkisstjórn Svandísar vannst ekki tími til þess á síðasta kjörtímabili. Hún var upptekin við að gefa út olíuleitarleyfi fyrir norðan land.