Vefþjóðviljinn 340. tbl. 19. árg.
Stundum mætti ætla af netumræðunni að stór hluti landsmanna stytti sér nú stundir, á meðan hann bíður eftir því að geta kosið Pírata til valda, með því að horfa á einn alefnilegasta listamann sinnar kynslóðar leggja nú nótt við dag við listsköpun innan í glærum kassa, þar sem hann mun skríða um nakinn í þágu listarinnar. Ríkisútvarpið, þetta með menningarhlutverkið og nauðungargjöldin, mun meira að segja hafa tekið að sér að sýna um tíma beint frá listsköpuninni, svo sem allra flestir gætu fylgst með henni heima í stofu.
Ekkert hefur að vísu heyrst frá Karlréttindafélaginu vegna listsköpunarinnar eða þeirrar athygli sem hún hefur valdið. Sýnir það deyfð félagsins því varla þarf að efast um hvernig því yrði tekið ef það væri kona en ekki karlmaður sem skriði um í gegnsæjum kassa, kviknakin og gerði þar þarfir sínar. Líklega þætti þar komið enn eitt dæmið um það hvernig feðraveldið þrýstir konum ofan í litla kassa. Ekki víst að því yrði tekið þegjandi ef Ríkisútvarpið sýndi gjörninginn í beinni útsendingu.
En maðurinn sem hefur víst haldið til í kassanum undanfarna dag er ágætis áminning um eitt sem ótrúlega oft virðist gleymast í opinberri umræðu á Íslandi, þrátt fyrir umburðarlyndið og víðsýnina sem mörgum er svo tíðrætt um.
Það eru ekki allir eins.
Menn geta haft ákaflega ólíkt gildismat. Það sem fjöldanum finnst óhugsandi finnst einhverjum tilvalið. Ekkert bendir til þess að maðurinn í kassanum sé þvingaður til þess að vera þar, nakinn og í beinni útsendingu. Þó finnst líklega flestum fráleit hugmynd að skipta við hann. Fæstir vilja vera naktir í kassa í beinini útsendingu allan sólarhringinn.
En fyrst hann vill gera þetta maðurinn þá er engin ástæða til þess að banna honum það. Rétt eins og það væri engin ástæða til þess að banna honum að dansa nakinn á veitingahúsi eða í heimahúsum, svo lengi sem húsráðendur leyfðu. Ef hann vill jafnvel dansa fyrir menn einkadans, þá á að leyfa honum og öðrum að semja um slíkt.
En svo langt nær umburðarlyndið ekki. Hann má það ekki. Hann má hins vegar skríða nakinn í kassa og senda allt út á netinu. Ríkissjónvarpið sýnir beint.
Það er margt annað sem á að leyfa þessum manni að gera. Ef hann vill taka lítið peningalán og semja um að borga það eftir mánuð með tíu prósent vöxtum, þá á að leyfa honum að gera það.
En svo langt vilja stjórnmálamenn ekki að athafnafrelsi hans náist. Nei vinur, þú mátt ekki taka þetta lán. En vertu bara áfram í kassanum, það er flott hjá þér.
Maðurinn í kassanum mun hafa ákveðið að dvelja þar þegjandi. Ef hann hins vegar rýfur þögn sína og æpir í myndavélina að Fauna-vindlar séu mikill unaður að reykja, þá hefur hann brotið lög. Þá er gamanið búið. Á Íslandi er bannað að tala um einstakar tóbakstegundir nema til þess að vara við neyslu þeirra. Þingmenn höfðu miklar áhyggjur af því að menn mættu ekki guðlasta, en af þessu hafa þeir engar áhyggjur.
Þegar maðurinn í kassanum lýkur við listaverkið og fer heim til sín, þá verður hann líka að gæta sín. Ef hann til dæmis heldur upp á unnið afrek með því að fá sér vindil í sameigninni, þá brýtur hann lög. Jafnvel þótt allir í húsinu vilji leyfa reykingar í sameigninni, þá mega þeir það ekki. Þeir mega vera naktir í kassa í beinni útsendingu, en þeir mega ekki fá sér vindil í eigin sameign.
Svo langt nær umburðarlyndið ekki. Þingmenn hrófla ekki við tóbaksvarnarlögunum.
Ef maðurinn í kassanum ákveður að reisa hús, þá verður hann líka að gæta sín. Það er búið að setja nákvæma byggingarreglugerð til að tryggja að menn reisi sér bara hús sem uppfyllir þær þarfir sem embættismenn hafa ákveðið að þeir hafi. Ef maðurinn reisir þriggja hæða fjölbýlishús, þá verður hann að hafa þar lyftu. Jafnvel þótt hvorki hann né aðrir sem ætla að eiga heima í húsinu vilji fá lyftu. Umburðarlyndið nær ekki svo langt að þeir megi ráða því. Þeir mega vera berir í kassa, en lyftulausir skulu þeir ekki vera. Þótt byggingarkostnaðurinn hækki um nokkrar milljónir, þá skulu þeir setja upp lyftu.
Ef maðurinn í kassanum ákveður að opna veitingastað þá má hann ekki leyfa gestum sínum að reykja á staðnum. Það gæti nefnilega komið gestur sem vill ekki vera í reyk, og því hafa stjórnmálamenn ákveðið að það sé þessi gestur en ekki húseigandinn sem eigi að ráða húsreglunum.
Þannig mætti telja mjög lengi. Ríkið skiptir sér af ótrúlegustu smáatriðum í daglegu lífi fólks og stjórnmálamenn gera lítið til að breyta því.
Og þar er enginn stjórnmálaflokkur undanskilinn.