Vefþjóðviljinn 331. tbl. 19. árg.
Eygló Harðardóttir húsnæðismálaráðherra mun hafa lagt til í vikunni að gripið verði til opinberra aðgerða gegn „hatursumræðu“ á netinu. Um leið hlupu hefðbundnir aðilar upp til handa og fóta. Þeir segja að ráðherrann skilji ekki internetið. Það sé ekki hægt að koma í veg fyrir umræðu á netinu. Ráðherrann ætli ekki að virða tjáningarfrelsi fólks, og svo framvegis.
Að sjálfsögðu vill Vefþjóðviljinn verja tjáningarfrelsi fólks. Það er ákaflega mikilvægt í lýðræðisríki að fólki geti komið skoðunum sínum á framfæri við aðra og rökstutt þær.
En það er svolítið merkilegt hversu margir verða bálreiðir þegar stjórnmálamenn vilja gera eitthvað gagnvart því sem gerist „á netinu“.
Netið er ekkert heilagri staður en hver annar. Það eru ekkert meiri heimildir til „hatursumræðu“ á netinu en annars staðar. Ef stjórnvöld mega refsa mönnum fyrir opinber „hatursummæli“ þá mega þau gera það hvort sem ummælin birtast í bók, tímariti eða bloggfærslu. Baráttan fyrir tjáningarfrelsi á að snúast um almennt tjáningarfrelsi en ekki um einstakar aðferðir til tjáningar.
En margir virðast ekki átta sig á að sömu meginreglur gilda „á netinu“ og annars staðar. Það sem má segja opinberlega má almennt segja á netinu, og öfugt. Sambærileg regla gildir almennt. Þannig mega menn ekki taka hugverk annarra traustataki á netinu, jafnvel þótt það sé tæknilega auðvelt. Það er einfaldlega bannað að stela, hversu auðveldur eða erfiður sem þjófnaðurinn er.
Það er alveg rétt að það ekki hægt að koma í veg fyrir að menn setji ærumeiðandi ummæli út á netið eða að menn taki kvikmynd annars manns traustataki. En það gerir það ekki löglegt. Það er ekki heldur hægt að koma í veg fyrir að menn aki yfir hámarkshraða, komi sér undan skattgreiðslum eða taki eigur annarra ófrjálsri hendi. En það gerir það ekki löglegt.
„Það er ekki hægt að hindra hugverkastuld á netinu nema með því að slökkva á netinu“, segja margir. Það er eflaust alveg rétt. Það er ekki heldur hægt að hindra of hraðan akstur nema með því að loka götunum. Það að auðvelt sé að brjóta af sér, gerir það ekki heimilt. Reglurnar gilda einfaldlega, mikill fjöldi manna fer eftir þeim, sumir alltaf, margir oftast. En auðvitað eru einnig margir sem láta sig engu skipta hvaða reglur gilda. En sá hópur á ekki að ráða því hvað er löglegt og hvað ekki.
Og fólk á að mega tjá skoðanir sínar óháð því hvað Eygló Harðardóttur finnst um þær. Það skoðanafrelsi á hins vegar ekkert frekar við á netinu en annars staðar.