Föstudagur 4. september 2015

Vefþjóðviljinn 247. tbl. 19. árg.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur nefnt að hugsanlega verði um 30% af hlut ríkisins í Landsbankanum seld á næsta ári. Því fagna eflaust margir.

Þeir sem vilja ekki að skattgreiðendur reki fjármálafyrirtæki fagna almennt þeim skrefum sem stigin eru til að ríkið dragi sig úr slíkum rekstri.

Þeir eru svo til sem geta fagnað því að fá nýja „einkavæðingu bankanna“ til að tala um. Margir hafa talað árum saman um einkavæðingu bankanna um síðustu aldamót. Vilja meira að segja kenna henni um bankahrunið árið 2008. Röngum mönnum hafi verið seldir bankar. Mönnum sem ekkert kunnu fyrir sér. Það verði að rannsaka þessa einkavæðingu.

Raunar hefur hún verið ítarlega rannsökuð. Ríkisendurskoðun gerði það raunar, en það er alveg sama. Það verður bara að rannsaka hana og fá rétta niðurstöðu. Röngum mönnum hafi verið seldir bankanir og þess vegna hafi allt farið í steik á Íslandi.

Einkavæðing bankanna fór fram í samræmi við lög. Eftir hana voru bankarnir á markaði og fólk gat keypt og selt bréf í þeim. Sá banki sem fyrstur fór um koll árið 2008 var raunar ekki einkavæddur um aldamótin heldur í grunninn löngu fyrr og af allt annarri ríkisstjórn. Þegar hinir bankanir voru einkavæddir var almenningi gefinn kostur á að skrá sig fyrir bréfum. Það gerði gríðarlegur fjöldi, en stór hluti kaupendanna seldi strax bréfin sín með hagnaði.

Tilhögun einkavæðingar bankanna átti ekki sök á bankahruninu. Þeir sem gagnrýna einkavæðingu þeirra harðlega nefna yfirleitt ekki hvort þeir hafi í raun viljað að ríkið héldi áfram að reka bankana tvo sem ríkisbanka. Hvar annars staðar á Vesturlöndum tíðkaðist það að bankakerfi landsins væri að stærstu leyti í eigu ríkisins? Átti íslenska ríkið að hafa þann hátt á áfram? Eða átti bara að selja einhverjum öðrum bankana, og þá væntanlega tryggja það einhvern veginn að rangir menn gætu ekki eignast bréf í þeim með viðskiptum síðar? Hlutabréf ganga kaupum og sölum á markaði. Það er erfitt að koma við reglum um að ekki geti aðrir eignast banka en þeir sem „kunna að reka banka“. Og var það ekki þannig að skömmu fyrir einkavæðinguna varð ríkið að koma Landsbankanum til bjargar?