Vefþjóðviljinn 245. tbl. 19. árg.
Enn ein skoðanakönnunin var birt nú um mánaðamótin. Samkvæmt henni njóta „Píratar“, flokkur sem naumlega komst inn á þing í síðustu kosningum, mest fylgis allra stjórnmálaflokka.
Og ekki eykst fylgi Sjálfstæðisflokksins, en það hrundi við Icesave-dóminn í lok janúar 2013 og hefur ekki hækkað síðan.
Hugsanlega telur forysta Sjálfstæðisflokksins að það fylgi sem skoðanakannanir hafa sýnt, allt frá Icesave-dóminum, sé óviðunandi. Ef svo er, þarf hún að vakna svo um munar.
Ef embættismenn hefðu verið spurðir fyrir fáum mánuðum hvað Sjálfstæðisflokkurinn ætti að gera til að endurheimta fylgi sitt, þá hefðu þeir sagt að engin ástæða væri til að hafa áhyggjur. Þegar búið væri að efna kosningaloforðið um „leiðréttinguna“ og leysa vandamálið risavaxna, höftin, myndi þetta breytast. Og þegar efnahagslífið færi á ný að taka við sér, þá myndu menn njóta ávaxta erfiðisins.
En þetta virkar ekki svona núna.
Efnahagslífið er í miklum uppgangi. Erlend matsfyrirtæki hækka lánshæfismat Íslands aftur og aftur. Atvinnuleysi er nær ekkert. Stór skref hafa verið stigin til að afnema höftin og það án þess að nokkur kollsteypa hafi enn orðið. Kosningaloforðið um „leiðréttingu“ var efnt og varð ríkissjóði ekki eins dýrt og margir höfðu óttast. Hvað sem um þetta má segja, þá var þetta skýrt kosningaloforð sem virtist njóta mikils stuðnings.
Í öllum aðalatriðum hafa mál færst hratt til betri vegar á undanförnum mánuðum. En fylgi ríkisstjórnarinnar fer jafn hratt niður og erfiðleikarnir minnka.
Þeir sem nú vilja endilega kjósa einhvern stjórnarandstöðuflokkinn til valda, eftir allt sem gerst hefur í rétta átt undanfarna mánuði, vilja sennilega líka reka Lars Lagerbäck frá landsliðinu.
En vilji forysta Sjálfstæðisflokksins í raun reyna að endurheimta það fylgi sem horfið er, verður hún að taka aftur frumkvæðið í íslenskum stjórnmálum. Það er ekki of seint, en það þýðir að menn verða að byrja að hegða sér eins og þeir hafi í raun og veru verið kosnir til valda.
Ráðherrar og þingmenn verða að taka völdin af embættismönnum og byrja að leggja fram og fá samþykkt raunverulega pólitísk frumvörp. Þeir verða að fara að átta sig á því að pólitískur ágreiningur um frumvörp er yfirleitt gæðamerki, en pólitísk samstaða um þau er það ekki. Frumvörp verða að koma fram snemma og menn verða að þola málþóf og áróður. Þeir verða að sýna kjósendum að í raunveruleikanum séu það borgaralegir hægrimenn sem vilja auka hlut einstaklingsins og minnka yfirráð ríkisins yfir lífi hans. Það verður hins vegar ekki gert í „pólitískri samtöðu“. Þeir þurfa að lækka skatta verulega og það strax, en láta embættismenn ekki stjórna ferðinni þar. Skattalækkanir sem embættismönnum í fjármálaráðuneytinu þykja ábyrgar munu aldrei verða þannig að almenningur finni fyrir þeim um hver mánaðamót. Hægagangurinn í skattalækkunum gengur ekki lengur. Það á að afnema pólitísk forsjárhyggjulög af miklum móð. Það þarf ekki margar slíkar lagabreytingar til þess að fólk á öllum aldri skilji hverjir það eru sem raunverulega vilja frelsi einstaklingsins. En þetta verður að gerast strax. Og þar má hvorki hlusta á embættismenn né hagsmunahópa.
Kjósendur sem ekki sjá mun á ráðherrum og embættismönnum munu aldrei framar kjósa flokk ráðherranna.