Vefþjóðviljinn 216. tbl. 19. árg.
Þegar ríkisvaldið dreifir persónugreinanlegum upplýsingum um hagi einstaklinga að þeim forspurðum mætti ætla að það væri alger lágmarkskrafa að slíkar upplýsingar séu eins áreiðanlegar og kostur er.
Í hinni svonefndu álagningarskrá sem skattstjóri birtir í lok júlí ár hvert eru ekki endanlegar upplýsingar um tekjuskatt einstaklinga. Þvert á móti er eins og nafn skrárinnar ber með sér um álagningu yfirvalda að ræða sem einstaklingar geta gert athugasemdir við. Endanlega niðurstaða er svo birt á næsta ári í svonefndri skattskrá.
Engu að síður nota „tekjublöðin“ svonefndu álagningarskrá sem grunn til að reikna laun manna, en ekki skattskrá. Ótal dæmi eru því um að tekjublöðin sýni ranga niðurstöðu í útreikningum sínum á launatekjum manna. Nýjasta dæmið er borgarfulltrúinn sem samkvæmt „tekjublaði“ hafði kr. 0 í tekjur á síðasta ári. Það vakti engar spurningar hjá reiknimeisturum „tekjublaðsins“ að kjörinn fulltrúi fengi engin laun fyrir starf sitt. Hvernig er þá með alla hina sem „tekjublaðið“ telur sig vera að reikna út launatekjur fyrir?
Þar fyrir utan geta tekjublöðin svo enga grein gert fyrir hvað eru launatekjur, hvað greiðsla úr séreignarsjóði eða þá hvað mönnum tæmist í arf eða fá í arð í stað launa úr fyrirtækjum sínum.