Vefþjóðviljinn 214. tbl. 19. árg.
Á dögunum var gengin ganga sem forsvarsmennirnir kölluðu „druslugöngu“ og fjölmiðlamenn höfðu mjög mikinn áhuga á. Hafði þetta einnig verið gert á nokkrum undanförnum árum og þá einnig við mikinn áhuga fjölmiðlamanna.
Þeir sem hafa staðið fyrir þessari göngu hafa skýrt hið óvenjulega nafn göngunnar með því að eitt meginmarkmið hennar sé að vekja athygli á því að þótt kona sé klædd „eins og drusla“ þýði það ekki að brjóta megi gegn henni kynferðislega.
Þetta með „drusluna“, hefur verið skýrt þannig að fyrir áratug eða svo hafi lögreglustjóri í Toronto í Kanada sagt í viðtali eitthvað á þá leið að ef konur vildu ekki láta nauðga sér ættu þær að hætta að klæða sig eins og druslur.
Fjölmiðlamenn hafa haft mjög mikinn áhuga á „druslugöngunni“ og málflutningi forsvarsmanna hennar . Engu að síður virðast þeir ekki hafa velt því sérstaklega upp hvort algengt sé að menn telji að leyfilegt sé að nauðga „druslulega“ klæddri konu.
Einhver myndi jafnvel hugsa með sér að ef slíkur hugsunarháttur væri algengur þá væri hægt að byggja baráttugöngur sínar á einhverju öðru en einum ummælum eins lögreglumanns í Kanada fyrir einhverjum árum. Það er ekki eins og Bandaríkjaforseti hafi verið að tala. Það er ekki eins og tugþúsundir manna um allan heim hafi tekið undir með manninum. Þetta er einn lögreglumaður í einu viðtali. Og hver hefur heyrt allt viðtalið? Voru ummælin kannski tekin úr samhengi? Útskýrði hann þau eitthvað? Hefur hann skipt um skoðun?
Hvaða máli skiptir hvað einn maður í Kanada segir fyrir einhverjum árum? Auðvitað engu. Það myndi hins vegar skipta máli ef það væri útbreidd skoðun á Íslandi að nauðga mætti „druslulega“ klæddu fólki og það væri svo gert. Eru mörg dæmi um það? Auðvitað getur það verið, en þá á að segja frá því, en ekki tala árum saman um einhvern mann í Kanada. Fjölmiðlamenn hafa mikinn áhuga á dómum í kynferðisbrotamálum. Hafa þeir þar séð talað um að hinn ákærði hafi borið fyrir sig að þolandinn hafi verið klæddur eins og drusla og „boðið upp á þetta“? Kannast saksóknarar við þessar mótbárur? Hefur einhver haldið þessu fram, einhvern tíma á þessari öld? Auðvitað getur það verið, en þá er það fréttaefnið en ekki einhver ummæli í Toronto, sem enginn hefur einu sinni heyrt í heild.
Undanfarna daga hefur verið skemmtilegt að fylgjast með æsingi nokkurra fjölmiðlamanna vegna þeirrar ákvörðunar lögreglustjórans í Vestmannaeyjum að láta fjölmiðlamenn ekki fá rauntímaupplýsingar um fjölda kærðra kynferðisbrota. Fjölmiðlamennirnir eru mjög reiðir. Blaðamannafélagið sendir frá sér ályktun um lýðræðisþjóðfélagið og þöggunina. Baráttumenn eru fengnir í viðtöl. Formaður VG blandar sér í málið og fleiri þingmenn. Einhver fjölmiðillinn sagði að með ákvörðun lögreglustjórans væri farið gegn sjónarmiðum „druslugöngunnar“.
Einstaklingi er nauðgað og hann kærir. Skyndilega er það ekki mál hans og lögreglunnar hvort sagt er opinberlega frá kærunni samdægurs heldur er Blaðamannafélagið orðinn hagsmunaaðili, baráttusamtök, „druslugangan“ og hinir og þessir. Það er orðið spurning um lýðræði að lögreglan segi strax frá því að borist hafi kæra í tilteknum málaflokki. Það má ekki dragast.
Varla hafa fréttamenn ætlað að hafa fréttatíma verslunarmannahelgar með sama sniði og kosningasjónvarpið. Hér voru að koma fyrstu tölur úr Atlavík, það er búið að kæra eitt kjaftshögg og tilraun til þukls. Hingað er komin Freyja Eyja Njáls og Bergþórudóttir frá Baráttusamtökunum Mannauðsstjórar gegn þukli, hvernig metur þú þessar fyrstu tölur?
Auðvitað eru kynferðisbrot ekkert gamanmál, ekki frekar en annað ofbeldi. En það er engin skylda lögreglu að senda fréttamönnum samfelldar fréttir. Það er engin „þöggun“ þótt ekki sé sent fax á fréttastofurnar í ofboði ef kæra berst til lögreglu. Þeir sem telja slíkt vera „þöggun“ vita ekki hvað þöggun er.