Vefþjóðviljinn 189. tbl. 19. árg.
Nýr rektor tók við í Háskóla Íslands á dögunum og var hann í viðtali við mbl.is í morgun. Þar talar Jón Atli Benediktsson eins og svo margir háskólamenn gera, og segir „mikilvægt að menntun sé metin til launa.“
Þetta er hefðbundin krafa þeirra sem hafa náð sér í háskólapróf. Þeir eru búnir að ná í „gráðuna“ og nú á einhver að borga þeim verðlaun fyrir það. Helst út starfsævina.
Jón Atli bætir við: „Það er gríðarlega mikil fjárfesting fyrir hvern og einn að afla sér háskólamenntunar. Og þess vegna á fólk að geta vænst ávinnings af slíku.“
Já, menn leggja út í þá fjárfestingu að ná sér í háskólagráðu. En ætli það sé nokkuð kennt í viðskiptafræðideild háskólans að allar fjárfestingar skili arði? Ætli það sé nokkuð kennt að fjárfesting eins sé nauðsynlega verðmætaaukning annars?
Það er ekki þannig að háskólamenntun skili alltaf verðmætari starfsmanni. Sá sem fer og „bætir við sig gráðu“ verður alls ekki endilega neitt verðmætari eða betri starfsmaður við gráðuna. Háskólamenntun getur verið ágæt en hún getur líka verið lítils virði snakk. Það eru líka mjög misjafnar „rannsóknir“ stundaðar í ólíkum greinum háskólanna.
En af því að rektor Háskóla Íslands telur að fólk eigi að geta vænst betri launa eftir háskólanámið, af því að það hafi lagt út í fjárfestingu, þá væri gaman að vita hversu langt sú krafa nær.
Jón fer í einkarekinn háskóla, sem skattgreiðendur borga að vísu verulegar fjárhæðir til, og greiðir þar um 700.000 krónur á ári í skólagjöld. Guðrún fer í ríkisrekinn háskóla og borgar 75.000 krónur í skráningargjald. Eftir fimm ára nám hefur Jón borgað 3.500.000 krónur en Guðrún 375.000 krónur. Á Jón ekki að fá aðeins hærri laun framvegis? Þetta er nú töluverð fjárfesting fyrir manninn.