Mánudagur 6. júlí 2015

Vefþjóðviljinn 187. tbl. 19. árg.

Ástandið í Grikklandi hefur verið mál málanna í vestrænum fjölmiðlum undanfarið. Í gær, þegar haldin var allsherjaratkvæðagreiðsla í Grikklandi fjölluðu vestrænir fjölmiðlar fram og til baka um málið og mögulegar afleiðingar hvorrar niðurstöðunnar sem væri.

Íslenska Ríkisútvarpið er auðvitað með puttann á púlsinum og í aðalfréttatíma þess í gærkvöldi sögðu þeir í Efstaleiti 1 mikilvæga frétt. Það hafði nefnilega verið haldinn mjög merkilegur fjöldafundur um Grikklandsmálið þann sama dag. Frá honum varð að segja vandlega, með viðtölum við fleiri en einn fundarmann og upptöku af hrópum annarra fundarmanna:

Á annan tug manna kom saman á Lækjartorgi klukkan tvö í dag á samstöðufundi með Grikkjum, undir yfirskriftinni „nei“. Til fundarins var boðað af róttæka sumarháskólanum og Attac á Íslandi. Kölluð voru slagorð, án réttlætis yrði enginn friður. Sólveig Anna Jónsdóttir er einn af skipuleggjendum fundarins: „Við ákváðum að koma saman vegna þess að það eru svona samstöðuviðburðir í allri Evrópu og bara út um allan heim og okkur fannst ekki hægt að Ísland eitt væri ekki með og við komum hérna saman vegna þess að við vonum að Grikkir segi nei í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Næst var spilað þegar fundarmenn hrópuðu slagorð á ensku nokkrum sinnum og því næst var tekið viðtal við annan fundarmann, Nönnu Hlín Halldórsdóttur:

„Við erum náttúrulega hingað komin til að sýna samstöðu, þú veist, það er, við erum náttúrlega, ég veit ekkert alveg hvernig ástandið er þar, en ég held að það sé ótrúlega mikilvægt til þess að sýna að það sé þú veist að það sé hægt að kjósa líka um manns eigin líf, og að eins og að fjármálaöflin að þau séu ekki þau sem ráði heldur fólkið í landinu.“

Fyrir helgi fjallaði Ríkisútvarpið vandlega um það hvað hrópað hafði verið að Alþingishúsinu á tíu manna mótmælasamkomu, sem haldin var á sama tíma og eldhúsdagsumræður fóru fram á þinginu. Hér var því um enn fréttnæmari samkomu að ræða, því hér voru fundarmenn að sögn Ríkisútvarpsins „á annan tug manna“.

Þetta eru jafnvel enn fjölmennari mótmæli en fyrir þingsetninguna árið 2013 þegar Ríkisútvarpið sendi fréttamann á staðinn og hann sendi beint út frá mótmælum þar sem þátttakendur voru að sögn fréttastofunnar „um fimm manns“.

Og þetta er fólk neytt til að fjármagna með „útvarpsgjaldinu“.