Vefþjóðviljinn 186. tbl. 19. árg.
Í síðustu tvennum þingkosningum hafa orðið mjög miklar breytingar á skipan Alþingis. Í fljótu bragði sýnist Vefþjóðviljanum sem 42 þingmenn af núverandi 63 hafi fyrst náð kjöri sem aðalmenn í kosningunum 2009 eða 2013 eða tekið við þingmennsku á miðju kjörtímabili eftir þær kosningar. Auk þess varð Eygló Harðardóttir fyrst þingmaður árið 2008. Það hefur alveg einstæð „endurnýjun“ orðið í þinginu á aðeins sex árum. Þar við bætist að á þessum árum hafa þrír nýir stjórnmálaflokkar fengið menn á þing en fylgi annarra flokka sveiflast mikið.
Hver er svo staða þingsins í huga hins almenna Íslendings, eftir alla þessa upplausn og endurnýjun?
Jú, eins og lesa má um á hverjum degi nýtur Alþingi nú aðeins traust örlítils hluta landsmanna.
Á því eru eflaust ýmsar skýringar.
Í fyrsta lagi á þetta sér þær eðlilegu ástæður að það er lýðræðisleg skylda þingmanna að takast á. Stjórnarandstöðunni ber að benda á það sem er athugavert við ákvarðanir stjórnvalda. Þeir sem halda að þingmenn eigi að vinna í einum hópi að sameiginlegum lausnum á sameiginlegum vandamálum skilja ekki gangverk lýðræðisins. Ef þingmenn allra flokka setjast bara niður á lokuðum fundi og semja um „þverpólitíska niðurstöðu“, þá hafa andstæðingar niðurstöðunnar enga rödd.
Í lýðræðisríki er hlutverk stjórnarandstöðunnar að vera þessi rödd. Í sveitarstjórnum og á Alþingi á að vera minnihluti sem tekur hlutverk sitt alvarlega og skilur það. Það er skylda minnihlutans að stunda „átakastjórnmál“.
Þeir eru til sem halda að „átökin á þingi“ séu það sem dregur mest úr trausti almennra kjósenda á þingmönnum. Ekki er nú víst að það sé rétt. Vissulega er sú mynd sem fréttamenn gefa oft af þingstörfum ekki alltaf glæsileg, en skynsamir kjósendur ættu ekki að hafa mikið á móti því að þingmenn tækjust á með rökum og berðust fyrir ólíkum hugmyndum.
Þeir sem fjalla um íslensk stjórnmál horfa oft fram hjá einu atriði, sem hefur vafalaust sitt að segja um lítið álit margra á þinginu.
Það eru ekki „átökin“, heldur þvert á móti átakaleysið. „Þverpólitíska samstaðan“ sem birtist ótrúlega oft.
Þverpólitísk samstaða þýðir að fulltrúar allra þingflokka semja bak við tjöldin um niðurstöðu. Enginn talar þá fyrir öðrum sjónarmiðum. Málið er samþykkt mótatkvæðalaust.
En þótt á þingi myndist „þverpólitísk samstaða“, þá eru engar líkur á því að sama samstaða sé meðal almennra Íslendinga. Þverpólitíska samstaðan varð bara til þess að þeir, sem andvígir eru málinu, fengu enga rödd á
Hversu oft ætli það gerist ekki að menn heyri í fréttum sagt frá einhverri samþykkt Alþingis sem þeim finnst alger fjarstæða. Þetta geta verið ný útgjöld, ný réttindi sem einhverjum hópi eru veitt, ný stefna sem er samþykkt. Svo ræða menn þetta við kunningjana, vinnufélagana og fjölskylduna, og þá reynast margir vera sammála, málið sé tómt rugl. En hvernig var það afgreitt á þingi? Jú, í „þverpólitískri sátt“.
Kolbeinn kjósandi mætir í prófkjör og kýs þá sem honum líst best á. Kýs svo í þingkosningum og hans flokkur fær allnokkra menn kjörna, þar á meðal einhverja þá sem hann kaus í prófkjörinu. Svo fara að berast fréttir um nýjar samþykktir á Alþingi, samþykktir sem Kolbeini finnst alveg fráleitar. Hann fer og kannar málið, hvort hans menn hafi ekki barist hetjulega þar til þeir voru ofurliði bornir. En nei, málið var afgreitt samhljóða. Hans menn reyndust með sama rétttrúnaðinn og allir hinir. Margir þeirra þögðu þar til þeir ýttu á já-takkann, einhverjir stóðust hins vegar ekki mátið og fóru í pontuna og fluttu þar sömu ræðu og allir hinir stuðningsmennirnir. Enginn talaði fyrir sjónarmiðum Kolbeins.
Þetta gerist aftur og aftur. Svo loksins hringir Gallup í Kolbein og spyr hann hvort hann beri traust til Alþingis.
Menn ættu að ímynda sér að allir Íslendingar gæfu upp raunverulega afstöðu sína til allra þeirra mála sem eru til afgreiðslu á Alþingi. Í hversu mörgum málum ætli afstaðan yrði í hlutföllunum 63-0 eða 62-1? Og hversu algengt ætli það sé að Alþingi afgreiði mál með slíkum hlutföllum?
Ætli þingmenn velti aldrei fyrir sér hversu mikinn þátt „þverpólitíska sáttin“ á í því að færri og færri telja sig eiga raunverulega fulltrúa á þingi?
Eitt af því sem brýnast er að gera til að auka traust manna á Alþingi er að kjósa þangað fulltrúa sem eru í raun pólitískir. Fólk sem hefur grundvallarskoðanir sem það stendur vörð um, bæði í vinsældum og óvinsældum. Fólk sem sem hefur engan áhuga á skoðanakönnunum, tíðarandanum, rýnihópum, álitsgjöfum og samfélagsmiðlum, og allra síst þegar einhverjir af þeim „loga“.
En þótt á þingi myndist „þverpólitísk samstaða“, þá eru engar líkur á því að sama samstaða sé meðal almennra Íslendinga. Þverpólitíska samstaðan varð bara til þess að þeir, sem andvígir eru málinu, fengu enga rödd á