Vefþjóðviljinn 182. tbl. 19. árg.
Í fréttum síðustu daga hafa kátir sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu með borgarstjórann í fararbroddi kynnt „léttlestir“ og „hraðvagna“ sem hluta af nýju „svæðisskipulagi“ höfuðborgarsvæðisins. Í Viðskiptablaðinu í fyrradag sagði til að mynda:
Nýtt svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið hefur verið samþykkt af öllum sveitarfélögum á svæðinu og staðfest af Skipulagsstofnun. Nýja skipulagið kveður á um miklar breytingar í byggðaþróun á höfuðborgarsvæðinu samhliða uppbyggingu nýs kerfis lesta eða hraðvagna, svokallaðrar Borgarlínu.
Á alþingi í dag var hins vegar samþykkt þingsaályktunartillaga frá Katrínu Jakobsdóttur, Svandísi Svavarsdóttur og fleirum um að fela innanríkisráðherra að „láta kanna hagkvæmni“ svokallaðs „léttlestakerfis innan höfuðborgarsvæðisins.“
Eru Katrín og Svandís ekki að segja með þessari tillögu sinni að léttlestir hafi verið settar í svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins án þess að hagkvæmni slíkra sporvagna hafi verið könnuð áður?
Eða er þetta bara eitt dæmið til um að þingmenn vinstri flokkanna taki margra ára gamlar tillögur sem ekki fengust afgreiddar á sínum tíma og endurflytji þeir án þess að taka tillit til þess sem gerst hefur í millitíðinni?