Miðvikudagur 17. júní 2015

Vefþjóðviljinn 168. tbl. 19. árg.

Hópur rudda kom í veg fyrir að almennir gestir gætu fylgst með ræðum, upplestri, tónlist og öðrum þáttum þjóðhátíðar á Austurvelli í morgun. Ruddarnir vilja aðra ríkisstjórn.
Hópur rudda kom í veg fyrir að almennir gestir gætu fylgst með ræðum, upplestri, tónlist og öðrum þáttum þjóðhátíðar á Austurvelli í morgun. Ruddarnir vilja aðra ríkisstjórn.

Það er eitt grundvallaratriða í lýðræðisríki að borgarinn megi koma skoðun sinni á framfæri. Að hann megi gera öðrum kunnugt um skoðunina og færa rök fyrir henni opinberlega. Að ríkið geti ekki bannað almenn skoðanaskipti.

Í þessu felst ekki, eins og einhverjir virðast hafa haldið allt frá hruni viðskiptabankanna þriggja, að hver og einn megi „segja skoðun sína“ hvar og hvenær sem er án tillits til annarra. Maður má ekki standa með gjallarhorn í miðju íbúðahverfi um miðja nótt og hrópa áköll sín um lægri tekjuskatt. Maður má ekki trufla lögmæta samkomu annarra með öskrum, jafnvel þótt honum sé mikið niðri fyrir. Tjáningarfrelsið veitir mönnum ekki sjálfdæmi um það hvar og hvenær þeir segja skoðun sína. Það tryggir hins vegar að þeim verður ekki bannað það alltaf og alls staðar.

Menn þurfa að sækja um leyfi til að halda útifund á opinberu svæði, svo dæmi sé tekið. Ekki til þess að yfirvöld geti lagt almennt bann við útifundum, heldur til þess að hægt sé að gæta allsherjarreglu. Tveir hópar fá til dæmis ekki leyfi fyrir ólíkum fundum á sama stað á sama tíma. Ef verkalýðshreyfingin fær leyfi til að halda útifund á Ingólfstorgi fyrsta maí, þá mega aðrir ekki mæta með gjallarhorn og yfirgnæfa fundarmenn með ákalli um frelsi í lífeyrissjóðsmálum. Þeir mega hins vegar halda annan fund um það mál á sama tíma, annars staðar. Eða á Ingólfstorgi daginn eftir.

Ef stuðningsmenn Palestínumanna fá leyfi til að halda fund á Lækjartorgi þá er ekki andstætt lýðræði og tjáningarfrelsi að stuðningsmönnum Ísraelssstjórnar sé ekki leyft að halda fund fyrir framan Hressingarskálann á sama tíma.

Það er ekki andstætt heldur í samræmi við lýðræði, fundafrelsi og tjáningarfrelsi, að fólki sé ekki leyft að eyðileggja samkomur annarra. Meðal annars þess vegna þarf leyfi fyrir útifundum. Það er ekki nóg að „boða komu sína á facebook“, þótt slíkt dugi auðvitað til þess að menn komist í alla fréttatíma Ríkisútvarpsins.

Þetta skildu flestir lengst af. En við hrun viðskiptabankanna þriggja virðist fleira hafa hrunið. Þá var til dæmis sköpuð sú trú að menn mættu fara sínu fram og vaða yfir aðra, bara ef þeir væru „mótmælendur“. Með öðrum orðum, að sá sem sé nógu reiður þurfi ekki að fara að reglum, þurfi ekki að taka tillit til nokkurs annars og megi hegða sér eins og honum sýnist. Og séu menn nógu margir, þá megi þeir allt. Einn maður sem öskrar eða kastar grjóti í dómkirkjuna eða Alþingishúsið, er fjarlægður. En hafi hann með sér fleiri eins, þá sé allt í lagi. Það sé meira að segja hneyksli ef hægt sé að sjá nöfnin þeirra í lögregluskýrslu.

Um tíma var bara látið eins og menn mættu gera lýðræðislega kjörið Alþingi óstarfhæft með hávaða. Slíkt er auðvitað ekki heimilt. Það eru ekki „mótmæli“ heldur ofbeldi.

Eftir tvo daga verður efnt til hátíðahalda í tilefni af aldarafmæli kosningaréttar kvenna, en auðvitað ekki minnst á alla aðra sem fengu kosningarétt á sama tíma. Það væru ekki „mótmæli“ heldur ruddaskapur ef einhverjir kæmu og yfirgnæfðu hátíðahöldin með öskrum um að leggja ætti niður Jafnréttisstofu. Slíkir menn væru ekki „mótmælendur“ heldur ruddar, hvað sem mönnum svo finnst um Jafnréttisstofu.

Hvernig halda menn að þjóðfélagið endaði, ef ruddaskapurinn yrði almennt viðurkenndur? Þeir sem eru á móti ríkisrekinni menningu stæðu með þokulúðra Sturlu Jónssonar fyrir utan leikhús og tónleikasali á meðan á sýningum stæði. Þeir sem eru á móti starfslaunum rithöfunda mynduðu hring kring um bækur þeirra í verslunum svo aðrir kæmust ekki til að kaupa þær. Á hverjum tíma væru einhverjir að gera Alþingi óstarfhæft með hávaða, bumbuslætti og grjótkasti. Aðrir væru hjá sveitarstjórnum, ráðuneytum og úrskurðarnefndum, öskrandi. Allir þessir menn væru í fréttatímum kallaðir „mótmælendur“, því þeir væru reiðir og væru að „lýsa skoðunum sínum“.

Ekkert af þessu ætti skylt við lýðræði eða tjáningarfrelsi. Engum manni er bannað að lýsa því yfir opinberlega að ríkisstjórnin sé léleg, ráðherranir hálfvitar og stjórnarandstaðan enn verri. Allir mega halda útifund, skrifa á netið, standa með skilti, gefa út blað eða grípa til hvaða friðsamlegu aðgerða sem er, til að koma skoðunum sínum á framfæri og jafnvel rökstyðja þær. En það á ekki að leyfa ruddunum að koma óorði á lýðræði og tjáningarfrelsi með yfirgangi við annað fólk. Ef menn ættu að strengja eitthvert heit á þjóðhátíðardegi, þá væri það líklega helst það, að sjá til þess að ruddarnir nái aldrei þeim völdum sem þeir eru nú svo reiðir yfir að þeirra menn hafi misst.