Vefþjóðviljinn 160. tbl. 19. árg.
Helstu eigendur þrotabúa gömlu bankanna virðast hafa samþykkt hið óumflýjanlega, að afskrifa krónueignir sínar gegn því að komast út með aðrar eignir. Hinum mörgu krónum þeirra var einfaldlega ekki hægt að skipta í aðra mynt með góðu móti. Menn með sæmilega virðingu fyrir réttarríkinu og eignarrétti hljóta að vona að þessi niðurstaða sé þegar á allt er litið sameiginleg.
Hugmyndir sem voru á kreiki fyrir síðustu kosningar um að nota mörg hundruð milljarða „svigrúm“ sem þessi afskrift myndi skapa ríkissjóði til að greiða einkaskuldir Péturs og Páls eru hvergi nefndar í þessu samhengi. Önnur aukin ríkisútgjöld eru ekki heldur nefnd, hvorki af stjórn né stjórnarandstöðu.
Það er mikill léttir þótt víst megi telja að einhverjir láti freistast til útgjaldaloforða er nær líður kosningum.
Menn virðast því enn sem komið er sammála um að séu einhverjar af þessum afskrifuðu krónum nothæfar verði þær nýttar til að grynnka á sameiginlegum skuldum landsmanna, skuldum ríkissjóðs.
Nothæfar? Eru krónurnar í þrotabúunum ekki fullgildar krónur? Jú, jú, út af fyrir sig eru þær það, hver og ein og ekki verri en aðrar sem eru í vösum venjulegra Íslendinga, en þær eru svolítið margar og ef þær fara í umferð hér á landi er ekki óhugsandi að einhver vilji fyrr en síðar skipta krónum í aðra mynt. Og það var einmitt vandinn sem menn telja sig nú hafa leyst.