Vefþjóðviljinn 159. tbl. 19. árg.
Það er ákaflega jákvætt ef höftunum verður aflétt, eins og nú virðast töluverðar líkur á, hvað sem segja má um hugmyndir um mörg hundruð milljarða króna skattheimtu á sama tíma. Aflétting haftanna er stórt skref í að skapa aftur eðlilegt þjóðfélag á Íslandi, eftir alla afturförina síðasta áratuginn.
Ótal ranghugmyndir öðluðust mikinn kraft við bankahrunið. Mörgum varð svo um, að talsmenn hefðbundinna borgaralegra viðhorfa virtust lengi vel ekki hafa kjark til að taka þátt í umræðu og andæfa versta ofstopanum. Og á honum var enginn skortur.
En vonandi öðlast Ísland sæmilega ró aftur. Aflétting gjaldeyrishafta verður eitt skref af ótal mörgum sem þarf að stíga. En það mun taka talsverðan tíma að losna við verstu meinlokur síðustu ára.
Um helgina samþykkti alþingi lög sem ætlað er að loka glufum á gjaldeyrishöftunum. Héldu ýmsir því fram að það væri alveg óþekkt að þingið kæmi saman á sunnudegi. Skrifstofustjóri þess fann þó dæmi frá árinu 1914.
Árið 2000 kom Alþingi saman til fundar sunnudaginn 2. júlí í tilefni af kristnitökuafmæli. Árið 1974 kom Alþingi saman til fundar á hátíðahöldum vegna ellefu hundruð ára afmælis Íslandsbyggðar, sunnudaginn 28. júlí.