Vefþjóðviljinn 148. tbl. 19. árg.
Þeir sem fylgst hafa með íslenskum stjórnmálum lengur en stutta stutt muna vel eftir nokkrum umræðuefnum sem fylltu fréttatíma og umræðuþætti viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár.
Verðbólgan var auðvitað sígilt vandamál. Í tíð vinstristjórnarinnar 1980 – 1983 náði hún til dæmis yfir 100% á einu ári. Annað mál sem hvíldi þungt á mönnum árum saman var „vandi sjávarútvegsins“. Hann var ræddur árum saman, enda var hann mjög alvarlegur. Sjávarútvegurinn barðist í bökkum og vegna erfiðleikanna var gengið fellt aftur og aftur.
Á þessum árum hefðu fáir trúað því að örfáum áratugum seinna myndi gott gengi sjávarútvegsins valda alveg jafn mörgum andvökunóttum og taugaæsingi.
Tvennt gerðist. Komið var á aflamarkskerfi í sjávarútvegi, „kvótakerfi“. Svo var stigið það heillaskref að gera aflaheimildir framseljanlegar. Í því felst lykillinn að hagkvæmni i sjávarútvegi og vegna þess er unnt að stýra sjávarútvegi þannig að tryggt sé, eins og slíkt er á manna færi, að um ókomin ár verði gjöful fiskimið við Ísland, sem skili verðmætum í þjóðarbúið. Það er það sem átt er við með orðunum „sameign íslensku þjóðarinnar“, en ekki að ríkið „eigi“ fiskimiðin svona eins og einstaklingur á bílinn sinn.
Bæði þessi grundvallarskref til bættra lífskjara og heilbrigðara efnahagsástands á Íslandi voru stigin í sjávarútvegsráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar. Síðara skrefið, framseljanleiki aflaheimildanna, var stigið í valdatíð ríkisstjórnar Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Framsóknarflokksins, þar sem sátu meðal annarra Steingrímur Hermannsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Baldvin Hannibalsson, Ólafur Ragnar Grímsson og Svavar Gestsson, og er án vafa það besta sem gert var á þeim stjórnarárum.
En eftir að Íslendingar misstu „vanda sjávarútvegsins“ úr fréttum fengu þeir í staðinn mennina með Réttlætiskenndina. Það eru þeir sem telja að einhverjir óverðugir hafi fengið fiskinn „þeirra“ gefins. Þeir hafa lesið kvótalögin og séð að fiskimiðin eru „sameigin íslensku þjóðarinnar“ og draga af því þá ályktun að „þjóðin“ eigi fiskinn og að það sé algert óréttlæti að bara sumir megi veiða hann. Það sé búið að gefa „eigur þjóðarinnar“. Þeir draga enga ályktun af því að lagaákvæðið um „sameign þjóðarinnar“ er í sjálfum kvótalögunum. Þeim finnst samt að kvótakerfið hljóti að vera í andstöðu við „sameign þjóðarinnar“.
Halldór Ásgrímsson var sjávarútvegsráðherra óslitið í átta ár, frá 1983 til 1991. Í huga margra var hann eftir það eflaust alltaf fyrst og fremst sjávarútvegsráðherra, enda varð hann fljótt virtur fyrir mikla þekkingu á ólíkum sviðum sjávarútvegsins og fastur fyrir þegar máli skipti. Var jafnan greinilegt að hann lagði áherslu á að vanda sig og tefla undirstöðuatvinnugreininni ekki í tvísýnu.
Síðar átti Halldór eftir að gegna öðrum mikilvægum störfum. Enginn hefur verið lengur utanríkisráðherra en hann. Í utanríkisráðherratíð hans tók Ísland undir þá skoðun á alþjóðavettvangi að til þess kynni að koma að Saddam Hussein og stjórn hans yrðu beitt hervaldi ef þau færu ekki að skilyrðum sem Sameinuðu þjóðirnar hefðu sett þeim. Ísland varð hins vegar ekki aðili að innrásinni í Írak og réði engu um hana, ólíkt því sem síðar gerðist, í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrigrænna, þegar Ísland nýtti aldrei neitunarvald sitt hjá Nató til að hindra loftárásir Nató á Líbýu. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingríms J. Sigfússonar, Össurar Skarphéðinssonar og Katrínar Jakobsdóttur ákvað að hindra ekki þær loftárásir, sem henni hefði verið í lófa lagið að gera.
Eitt það mál sem Halldór Ásgrímsson fylgdi eftir af festu var ákvörðun um virkjanaframkvæmdir sem kenndar eru við Kárahnjúka. Þótt sú virkjun muni skila verðmætum næstu áratugina mun það líklega engu breyta um afstöðu þeirra sem heitastir voru gegn framkvæmdinni af umhverfisástæðum. Enda getur verið fullkomlega virðingarverð afstaða að vera af umhverfisverndarástæðum andvígur arðbærri framkvæmd.
Halldór Ásgrímsson leiddi annan ríkisstjórnarflokkinn á tímum þar sem margt færðist til betri vegar. Efnahagsástandið batnaði jafnt og þétt, skattar voru lækkaðir og erlendar skuldir ríkisins allar greiddar upp, svo dæmi séu tekin. Halldór átti sem flokksformaður í ríkisstjórnarsamstarfi sinn töluverða þátt í því sem gert var, og skipti þar vafalaust miklu máli að hann var fastur fyrir og ekki auðhræddur frá settu marki. Þeir sem voru ósammála Halldóri Ásgrímssyni um ýmislegt, bæði stefnu og einstök verk, mega einnig viðurkenna að hann var mannkostamaður sem vildi vel og markaði spor til góðs.