Vefþjóðviljinn 147. tbl. 19. árg.
Langflest sveitarfélög landsins innheimta hámarksútsvar af íbúum sínum. Jafnt hálaunamenn sem láglaunafólk er krafið um hæsta leyfilega skatt til sveitarfélagsins, því sveitarstjórnarmenn telja sig ekki færa um að reka sveitarfélögin öðruvísi. Séu þeir spurðir hvort ekki komi til greina að létta aðeins útsvarsbyrðina sem lögð er á íbúana, svara þeir jafnan að það sé ekki hægt. Það sé ekki hægt að veita „lögboðna þjónustu“ nema með því að innheimta hámarksútsvar.
Það er með öðrum orðum meiri þörf fyrir peningana í borgarsjóði og bæjarsjóði en í vasa launmannsins sem vann fyrir þeim.
En „hvar á að skera niður“ svo hægt sé að lækka útsvar? Þannig spyrja stuðningsmenn hárra skatta oft, til að koma öðrum í varnarstöðu. Þú sem vilt lækka skatta, viltu ekki segja fólki hvar á að skera niður?
En auðvitað er það þannig að það er skattasinninn sem ætti að þurfa að réttlæta skattheimtuna. Launamaðurinn vinnur fyrir launum sínum og sá sem ætlar að taka hluta þeirra af honum þarf að réttlæta það.
Stjórnmálamenn eyða þeim peningum sem þeir geta. Ef menn vilja spara hjá hinu opinbera verður að minnka hlutdeild þess í tekjum launafólks. Þá mun hið opinbera neyðast til að spara, sem það mun annars ekki gera.
En þegar skattar eru aldrei lækkaðir lengur, svo fólk muni um það, þá verður baráttan fyrir niðurskurði erfiðari. Þeir sem fá úr opinberum sjóðum berjast með kjafti og klóm gegn niðurskurði, en hinir sjá ekki endilega samhengi milli niðurskurðarins og hærri útborgaðra launa.
Reykjavíkurborg lofaði á dögunum að styrkja tónlistarhátíðna Iceland Airwaves um níu milljónir króna frá útsvarsgreiðendum. Af því tilefni sat Dagur B. Eggertsson fyrir á mynd þar sem hann tók í hendina á forsvarsmanni hátíðarinnar og var tekið fram í fréttum að Dagur hefði verið í leðurbuxum á meðan á þessum atburði hefði staðið. Þetta er sami Dagur og var sjaldan í viðtölum þær vikur þegar Strætó skildi fatlaða farþega eftir í reiðileysi um alla borg. Embættismenn eru aldrei sendir í fjölmiðla þegar á að veita styrk úr borgarsjóði. Þeir koma bara þegar eitthvað þykir hafa farið úrskeiðis.
En þeir sem hafa gaman af þessari hátíð, þeim finnst þetta mjög mikilvægur styrkur. Já og skilar sér margfalt aftur í borgarsjóð, eins og öll önnur útgjöld gera reyndar, að mati þeirra sem áhuga hafa á því sem fær styrkinn hverju sinni. Áhugamenn um Iceland Airwaves munu tryllast ef einhver vill að skattgreiðendur hætti að styrkja þessa tónlistarhátíð. En hver berst þá gegn styrkveitingunni? Jafnvel þótt hætt verði við níu milljóna króna styrk þá verður útsvar ekki lækkað um níu milljónir sem skipt yrði milli útsvarsgreiðenda. Enginn telur sig hafa neina sérstaka hagsmuni af neinum tilteknum niðurskurði, og því berst enginn fyrir honum.
Dagur fær mynd af sér. Hann fær kannski líka að skrifa ávarp í prógrammið, ef það er gefið út. Hann verður í stuttu blaðaviðtali rétt fyrir hátíðna og spurður fyrir hverju hann sé spenntastur nefnir hann næstum allt. Hann fær boðsmiða á alla tónleika og mætir og situr fyrir á mynd með nokkrum böndum. Í leðurbuxum að sjálfsögðu.
Ef borgaryfirvöld hefðu neitað um styrk þá hefði verið ráðist á þau í fjölmiðlum. Þau hefðu verið sökuð um að trampa á vaxtarbroddunum, eyðileggja uppbyggingarstarfið og fórna heildarhagsmunum. Enginn hefði varið borgaryfirvöld.
Þess vegna aukast opinber útgjöld samfellt, en skattar lækka ekki.