Vefþjóðviljinn 146. tbl. 19. árg.
Víða virðist lítill hluti félagsmanna stéttarfélaga hafa tekið ákvörðun um að loka vinnustöðum með „verkfalli“. Dæmi um þetta er VR þar sem 14% atkvæðisbærra manna studdu „verkfallsboðun“ í almennri atkvæðagreiðslu.
Meðal þeirra sem hafa rétt til að greiða atkvæði um „verkfall“ eru unglingar sem vinna með skóla, kannski nokkrar stundir í viku. Þeir geta meinað fólki, sem hefur fyrir heimili að sjá, að vinna auk þess að valda vinnuveitanda og viðskiptavinum hans tjóni.
Verkalýðsfélagið Hlíf sendi félagsmönnum sínum atkvæðaseðil á dögunum. Með atkvæðaseðlinum fylgdi leiðbeiningabæklingur á þremur tungumálum um atkvæðagreiðsluna. Hér að ofan getur að líta forsíðu hans en hún var fremur hlutlaus miðað við annað efni hans.
Þeir félagsmenn Hlífar sem eru andvígir verkfalli greiða kostnaðinn við bæklinginn með félagsgjöldunum sínum.