Vefþjóðviljinn 131. tbl. 19. árg.
Ríflega 90% aðspurðra vilja að fjölmiðlamenn kynni viðmælendum sínum ætli þeir sér að hljóðrita símtal. Þessi afstaða nýtur yfirgnæfandi stuðnings í öllum hópum og meðal kvenna og yngsta aldurshópsins nýtur hún um 96% stuðnings.
Þetta eru niðurstöður viðhorfskönnunar sem MMR gerði fyrir Andríki dagana 16 til 21. apríl 2015.
Spurt var: Telur þú rétt að fjölmiðlamönnum beri að upplýsa viðmælendur sína áður en símtöl eru hljóðrituð?
Fyrir alþingi liggur nú frumvarp tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins um breytingar á fjarskiptalögum þar sem skerpt er á gildandi ákvæðum um að hljóðritanir símtala séu kynntar viðmælanda. Það er ekki að tilefnislausu.
Blaðamannafélag Íslands hefur litið svo á – þvert á álit Persónuverndar – að fjölmiðlamenn séu hafnir yfir núverandi ákvæði fjarskiptalaga um hljóðritun símtals. Það er auðvitað sérstakt að félag á borð við blaðamannafélagið lýsi því yfir að félagsmenn þurfi ekki að fara að almennum lögum í landinu.
Þessi hroki félagsins hefur leitt til þess að margir fjölmiðlamenn hringja óhikað á vinnustaði eða jafnvel heim til alls kyns fólks með upptökutækið í gangi og hirða ekki um að segja viðmælendum sínum að allt sem berst í símtólið sé hljóðritað og verði varðveitt hjá hinum vandaða blaðamanni þar til honum þóknast að eyða upptökunni.