Helgarsprokið 10. maí 2015

Vefþjóðviljinn 130. tbl. 19. árg.

Eftir sigur breska Íhaldsflokksins í þingkosningunum þar í landi í síðustu viku hafa ýmsir álitsgjafar kvartað yfir breska kosningakerfinu. Þingstyrkur flokka geti orðið mun meiri, eða mun minni, en hlutfall þeirra í samanlögðum atkvæðum á landsvísu. Það er auðvitað alveg rétt enda er kerfið hugsað út frá því að hvert kjördæmi sé einfaldlega að velja sér einstakling sem fulltrúa sinn á þinginu í London, en ekki að velja sér stjórnmálaflokk.

Kosningakerfið í Bretlandi er því hreinasta útgáfa persónukjörs sem þekkist í nágrenni við Ísland. En einhverra hluta vegna virðast jafnvel þeir, sem verst eru haldnir af trúnni á persónukjör, ekki hrifnir af þessu kerfi akkúrat núna.

En auðvitað verður enginn ánægður þegar honum finnst atkvæðið hans detta „dautt“ niður. Ekkert kosningakerfi kemur í veg fyrir slíkt, þótt það breska bjóði vissulega upp á mikið af „dauðum atkvæðum“. En svo má segja að eðli kosninga sé að margir fái ekki það sem þeir vilja. Í Bandaríkjunum mæta um hundrað milljón manns og kjósa landinu forseta. Rétt rúmlega 50% kjósa frambjóðanda annars stóru flokkanna og hann verður forseti í fjögur ár. Þau tæplega 50% sem kjósa „hinn“ frambjóðandann fá ekkert fyrir sinn snúð. Þeirra maður verður ekki forseti í tæplega tvö ár. Þessi tæplega fimmtíu milljón atkvæði, eða hvað þau eru mörg hverju sinni, falla einfaldlega „dauð“ niður.

Sumir vilja að landið verði eitt kjördæmi. Þá vegi öll atkvæði jafnt. Auðveldara verði fyrir smáflokka að fá menn kjörna á þing.

Sú tilhögun hefur ekki hlotið mikinn stuðning í heiminum. Að minnsta kosti eitt lýðræðisríki hefur hins vegar notað hana áratugum saman, en menn geta svo deilt um hvort smáflokkarnir, sem þetta kerfi tryggir, hafi reynst heilladrjúgir fyrir stjórnarfar í Ísrael.

En nú hafa David Cameron og félagar hans hlotið hreinan meirihluta á breska þinginu. Og þeir ætla að stjórna landinu en ekki láta sér nægja að leggja fram frumvörp embættismanna.

Þeir telja ekki heldur að sér sé óheimilt að hagga við þeim lögum sem sett voru í valdatíma vinstristjórnar Verkamannaflokksins.

David Cameron hefur tilkynnt að Michael Gove, fyrrverandi menntamálaráðherra, verði skipaður dómsmálaráðherra Bretlands. Hans helsta verkefni verður að hafa yfirumsjón með því lögleiðing Mannréttindasáttmála Evrópu í bresk lög verði afturkölluð, en í staðinn sett bresk lög um mannréttindi.

Af þessu mættu íslenskir stjórnmálamenn mikið læra.

Ekki endilega það að afnema lög um Mannréttindasáttmála Evrópu og setja sérstök lög um mannréttindi, þótt það væri alls ekki eins slæm hugmynd og margir halda eflaust að óhugsuðu máli. Það sem íslenskir stjórnmálamenn mættu læra, er að þeir sem mynda meirihluta á þinginu mega setja raunverulegt mark sitt á löggjöf í landinu. Stjórnmálamenn eiga að taka pólitískar ákvarðanir.

Núverandi ríkisstjórn hefur lítið gert til að afnema vinstri-lögin sem sett voru í valdatíð Jóhönnu og Steingríms. Ráðherrarnir virðast bara sitja við borðið sitt og bíða eftir því að embættismennirnir færi þeim frumvörp sem verið sé að „vinna að í ráðuneytinu“.

Forystumenn stjórnarflokkanna virðast óttast það mest af öllu að gera eitthvað sem gæti orðið umdeilt.

Skattahækkanir vinstristjórnarinnar á almenning hafa fengið að vera í friði. Skattþrepunum hefur ekki verið fækkað aftur. Allar lagabreytingar sem gerðar voru til aðlögunar að Evrópusambandsaðildinni standa óbreyttar.

Og enginn þorir að taka á þeim í Efstaleiti 1. Það er meira að segja lagt til að auka verulega peningamoksturinn í hítina.