Laugardagur 9. maí 2015

Vefþjóðviljinn 129. tbl. 19. árg.

Ein ágætustu blaðaskrif þingmanns á þessu kjörtímabili birtust í Morgunblaðinu í morgun. Þar skrifar Haraldur Einarsson þingmaður Framsóknarflokksins um sjávarútvegsmál.

Á fáum sviðum hafa Íslendingar náð jafnmikilum árangri og í sjávarútvegi. Þrátt fyrir það, og ef til vill vegna þess, er umræðan um íslenskan sjávarútveg oft á tíðum neikvæð og jafnvel fjarstæðukennd. Íslenskur sjávarútvegur skilar nú meiri tekjum til samfélagsins en nokkurn tíma í sögu landsins. Fiskur í sjó telst þó ekki alls staðar verðmæt auðlind. Í flestum löndum er sjávarútvegur ekki arðbær grein. Ríki sem stunda sjávarútveg, og hafa efni á, veita iðulega miklu af fjármagni skattgreiðenda í ríkisstuðning við greinina á sama tíma og þau stunda rányrkju á fiskstofnum. Hér á landi hefur hins vegar skynsamleg stjórn fiskveiða leitt til þess að saman fara hagkvæmar og sjálfbærar veiðar. Sjávarútvegur þar sem náttúran er vernduð en samfélagið, allur almenningur, hagnast á greininni í stað þess að hún sé byrði á skattgreiðendum.

Þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga er ótrúlegt að hlýða á stóryrðin og níðið sem streymir linnulítið fram um sjávarútveginn á opinberum vettvangi. Það er látið eins og þeir sem stunda þessa atvinnugrein fari ránshendi um auðlindir landsins þótt þeir skili bæði ríkissjóði og þjóðfélaginu öllu stórfé.

En umræðan hér á landi um atvinnurekstur almennt er fyrir neðan allar hellur. Eins og Haraldur bendir á mega menn hvorki hagnast né tapa á atvinnurekstri. 

Þessa dagana ber talsvert á fólki sem þykir hvorki við hæfi að þeir sem reka fyrirtæki hagnist né að þeir tapi peningum og má vart á milli sjá hvort telst meiri synd.

Þessum hópi, sem tortryggir alla sem búa til störf og skila tekjum til samfélagsins, virðist vera alveg sérstaklega í nöp við þá sem ná árangri á sviði sjávarútvegs og skila með því sköttum í ríkiskassann. 

Í síðari hluta greinar sinnar fer Haraldur yfir efnisatriði makrílfrumvarpsins svo ekki stendur steinn yfir steini í málflutningi þeirra sem nú efna til undirskriftarsöfnunar um merkingarleysuna „þjóðareign“.