Vefþjóðviljinn 122. tbl. 19. árg.
Það er verulegur léttir öllum þeim sem hafa áhyggjur af hinni ofboðslegu útþenslu ríkisvaldsins og síaukinni miðstýringu að hinn svonefndi náttúrupassi hafi verið sleginn af.
Náttúrupassi er of miðstýrð lausn. Hann var ansi nálægt því að vera bara eins og hver annar skattur sem lagður er á almenning. Með honum átti að setja upp milljarða króna opinberan úthlutunarsjóð sem tilheyrandi rentusókn og kjördæmatogi. Og með honum var engin leið að stýra ferðamannahjörðinni frá viðkæmum svæðum yfir á önnur sem þola ágang betur. Á sama tíma hjólaði ríkisvaldið svo í þá landeigendur sem reyndu að innheimta gjöld af rútuförmunum sem streyma yfir land þeirra.
En ekki tekur betra við. Iðnaðarráðherra boðar nú að fjármunir til viðhalds og verndunar ferðamannastaða verði einfaldlega sóttir í vasa almennra skattgreiðenda.
Það er óboðlegt að skattgreiðendur fái þennan reikning af starfsemi sem greiðir ekki einu sinni virðisaukaskatt eins og aðrar atvinnugreinar í landinu.
Miklu frekar hlýtur stjórn hvers þjóðgarðs og landeigendur á hverjum stað að skoða með hvaða hætti sé hægt að innheimta gjöld af ferðamönnum. Til þess eru ýmsar leiðir og misjafnar milli staða.