Vefþjóðviljinn 121. tbl. 19. árg.
Verkalýðsforystan býr sig nú í ákafa undir átök til að knýja fram almennar launahækkanir langt umfram efnahagsbata í landinu.
Er í fljótu bragði ekki auðvelt að sjá leiðir til að koma í veg fyrir að mjög mikið tjón verði unnið á efnahagslífinu, því margir eru búnir að tala sig í þá stöðu að þeir eiga engan skynsamlegan kost eftir.
Eitt af því sem mun fylgja komandi átökum er það stórfurðulega fyrirbæri, „verkfallsvarsla“.
Hún er í raun ekki annað en að hópur manna ákveður að beita líkamlegu valdi til að knýja fram vilja sinn.
Í flestum tilfellum átta nær allir sig á að slíkt er ekki boðlegt í réttarríki. Nema í verkföllum. Þá hefur tekist að koma á því ástandi að réttarríkið er næstum tekið úr sambandi. Meira að segja lögreglunni er skipað að láta eins og hún sé blind, rétt á meðan.
Hvað myndu menn segja ef húseigandi teldi sig eiga rétt á að losna við leigjanda, og hann myndi bara tala við vini sína og þeir kæmu svo margir saman og hentu manninum út með valdi? Auðvitað sæju allir að þar væru menn að taka sér vald, sem þeir hafa ekki, til að ná fram rétti sem þeir vilja eiga, og eiga kannski. Það getur vel verið að húseigandinn eigi rétt á að vísa manninum út. En það er þá yfirvalda að skera úr um það, með hefðbundnum leiðum.
Að sama skapi getur verið að verkalýðsfélag eigi rétt á því að einhver vinni ekki starf á verkfallstíma. En þá á að fara hefðbundnar leiðir til að ná fram þeim rétti. Það er til dæmis hægt að fara í skaðabótamál ef einstaklingur eða fyrirtæki bakar ólögmætt tjón með „verkfallsbroti“. Fjölmargar leiðir eru færar, sem ekkert er að því að menn fari.
En þegar menn ætla að ná réttinum fram með því að safnast saman, kreppa hnefana og öskra, þá er það nú stundum vísbending um að þeir hafi ekki í raun þann rétt sem þeir segja.
Hvað segðu menn ef hlutverk snerust við? Ef maður sem teldi sig eiga rétt á að vinna vinnuna sína þrátt fyrir verkfall, myndi bara mæta á vinnustaðinn með fimmtíu vinum sínum og sópa „verkfallsvörðum“ í burtu? Hann kallaði það kannski „vinnuréttarvörslu“. Væri það réttmætt? Á rétturinn kannski að ráðast af því hvor getur safnað meira liði?
En ef það er ekki réttmætt, hvers vegna er þá „verkfallsvarslan“ réttmæt?
Í réttarríki eiga menn að fá fá rétt sinn með löglegum leiðum, ekki handafli.