Vefþjóðviljinn 120. tbl. 19. árg.
Á undanförnum árum hafa komið fram ýmsar hugmyndir um að breyta íslenskri raforku í eldsneyti fyrir bíla. Það þykir að vonum heillandi hugmynd að geta framleitt eldsneyti hér innanlands og dregið úr innflutningi.
Skemmst er að minnast áheita um síðustu aldamót um „vetnishagskerfi“ innan nokkurra ára. Vetnishagkerfið varð aldrei að veruleika en reikningarnir fyrir því bárust hins vegar skattgreiðendum í raunveruleikanum.
Nýverið hafa verið viðraðar hugmyndir um að framleiða metanól með íslenskri raforku og blanda því í bensín fyrir almennan markað. Því miður er metanól mjög óstöðugt í bensíni vegna vatnsdrægni. Því er sett 3% hámark á íblöndun metanóls í evrópskum bensínstaðli og að auki gerð krafa um íblöndun annarra efna sem gera metanólið stöðugra. Þar koma einkum önnur alkóhól á borð við etanól og bútanól til greina.
Ef marka má opinbert tal þeirra sem hyggjast framleiða metanól hér á landi vilja þeir blanda metanóli allt að 3% í bensínið. Það þýðir að einnig þyrfti að blanda bensínið með um 6% etanóli. Etanólið er innflutt eins og bensínið.
Slík blanda (91% bensín, 3% innlent metanól og 6% etanól) myndi auka eyðslu í bílvél um 4% (L/km). Ástæðan fyrir því er lágt orkuinnihald etanóls og sérstaklega metanóls í samanburði við bensín.
Íslendingar flytja inn um 200 milljónir lítra af bensíni á ári. Ef bensínið væri drýgt með 3% innlendu metanóli þyrfti að auka innflutning á eldsneyti (bensíni og etanóli) um 2 milljónir lítra á ári vegna hinnar auknu eyðslu.
Eldneytisnotkunin í heild færi úr 200 í 208 milljónir lítra. Þar af væru aðeins 6 milljónir lítra metanól.