Vefþjóðviljinn 107. tbl. 19. árg.
Nú vofa verkföll yfir víða á vinnumarkaði og þarf engum að koma á óvart. Eftir að Guðbjartur Hannesson ákvað að snarhækka laun forstjóra Landspítalans, sem síðan kallaði á umtalsverða launahækkun hjúkrunarkvenna sem síðar kallaði á mikla launahækkun lækna, blasti þetta við. Ekki dró úr þessu þegar núverandi stjórnvöld gáfust ótrúlega fljótt upp fyrir framhaldsskólakennurum og hækkuðu laun þeirra verulega.
Margir hafa fengið verulegar hækkanir og þar með eru margir aðrir sem geta sagt að þeir hafi „dregist aftur úr“ og að „þeir einir“ geti ekki verið ábyrgir fyrir því að halda uppi stöðugleika.
Og þegar þetta liggur fyrir er aftur horft til ríkisins. Hver á „aðkoma“ þess að vera?
Vefþjóðviljinn veit það eins og flest annað.
Ríkið á að lækka skatta verulega. Það ætti að greiða fyrir kjarasamningum því skattalækkun eykur ráðstöfunarfé vinnandi fólks. Lækkun tekjuskatts skilur meira eftir í launaumslaginu. Lækkun virðisaukaskatts ætti að lækka vöruverð. Lækkun fjármagnstekjuskatts ætti að lækka húsaleigu.
Þegar útborguð laun hækka en skattur á neysluvarning lækkar, þá hleypir það krafti í atvinnulífið. Fólk getur veitt sér meira, hvort sem það eru nauðþurftir eða „ónauðsynleg“ ánægjuefni.
En hvernig á ríkið að „eiga fyrir skattalækkuninni“?
Í fyrsta lagi á ríkið ekki skattana sem það er ekki búið að leggja á fólk. Það er ekki eins og ríkið sé að afsala sér eigum sínum, þótt það taki örlítið minna úr vösum fólks.
Og raunar myndi eitthvað af skattalækkuninni koma aftur til ríkisins, vegna aukinna umsvifa í atvinnulífinu.
En ríkið á að skera niður. Það er hægt að skera mjög mikið niður hjá ríkinu án þess að skerða það sem einhverjir kalla „grunnþjónustu“.
Jafnvel þótt menn segðu að ríkið ætti að tryggja öllum eðlilega heilbrigðisþjónustu, barnaskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, og tryggja öryrkjum og sjúklingum framfærslu, væri hægt að skera verulega niður.
Ef ríkið hætti félagslegri aðstoð við fullfrískt fólk, hætti að fjármagna áhugamál þeirra sem hafa komið ár sinni fyrir borð, skæri niður froðuverkefni um allt land, þá væri hægt að lækka skatta mjög verulega.
En samt er þetta ekki gert. Hvers vegna ekki?
Ætli það sé vegna þess að heilbrigðir, vinnandi, aflögufærir menn yrðu bálreiðir? Þessir sem vilja láta ríkið reka fyrir sig hljómsveit, byggja tónlistarhallir, kenna „kynjafræði“, greiða ferðakostnað íþróttafélaga, vinna „rannsóknir í félagsvísindum“ og gera allt hitt sem milljarðar og aftur milljarðar af skattfé fara í, langt umfram alla „grunnþjónustu“.
Hvenær mun þetta lið sætta sig við það að það er ekki hlutverk ríkisins að fjármagna áhugamál þess?