Fimmtudagur 19. mars 2015

Vefþjóðviljinn 78. tbl. 19. árg.

Auðvitað hefur ekkert verið rætt um kost og löst á því að ganga í Evrópusambandið öllum hamaganginum undanfarna daga. Því miður hlaupa margir sem taka þátt í umræðunni í felur á bak við „kröfuna um þjóðaratkvæðagreiðslu“ ef gengið er á þá um efnislega afstöðu til aðildar. 

Þess vegna er kærkomið að fá viðtöl í blöðunum eins og það sem Kolbrún Bergþórsdóttir átti nýlega við Harald Ólafsson veðurfræðing í DV. Kolbrún spyr Harald um afstöðu hans til Evrópusambandsins.

Ég er algjörlega sannfærður um að það sé ógæfa að setja mikið vald í hendur fólks sem valið er af öðrum en þeim sem búa á Íslandi eða hafa sterk tengsl við íslenskt samfélag. Það fólk sem velur þá sem ráða í sambandinu er valið af fólki sem er kosið af öðru fólki sem nærri allt á það sameiginlegt að búa ekki á Íslandi og hafa engin tengsl hingað. Flest það fólk lætur sér í léttu rúmi liggja hvort Ísland sekkur eða flýtur.

Ætli þessi stutta lýsing Haraldar sé ekki ítarlegri lýsing á afstöðunni til ESB en allar samanlagðar ræður þingmanna Pírata og Bjartrar framtíðar?

En þótt skoðun Haraldar á ESB sé ágæt þótti Vefþjóðviljanum ekki síðra að Kolbrún skyldi spyrja hann um eftirlætis veðrið.

Já, útsynningur á vetrum er mjög fallegt veður. Éljaklakkarnir eru fallegir og sömuleiðis birtan sem kemur síðla vetrar í snjónum. Og svo er það þessi litríki breytileiki í suðvestanáttinni. Eina stundina er glampandi sólskin og svo skellur allt í einu á blindhríð. Útsynningurinn er eins og fjörugt og skemmtilegt tónverk. En það er með veðrið eins og tónlist, maður hlustar ekki á sama lagið viðstöðulaust. Fjölbreytileikinn er það skemmtilegasta og fallegasta í veðrinu.

Þetta er þörf leiðrétting því útsynningurinn hefur verið úthrópaður í allan vetur eða allt þar til menn fengu eitthvað annað með suðaustan á laugardaginn var. 

Og þótt Haraldur nefni vetrarútsynninginn sérstaklega er hann ekki síður skemmtilegur að sumri til, menn eru mátulega komnir í pollagallann þegar sólin brýst aftur fram eftir skúrina.