Miðvikudagur 18. mars 2015

Vefþjóðviljinn 77. tbl. 19. árg.

Það vantar ekki vitleysuna í Evrópusambandsmálið.

Nú hefur stjórnarandstaðan ákveðið að bæta enn í, með því að boða tillögu um að efnt verði til „þjóðaratkvæðagreiðslu“ næsta haust um það hvort Ísland eigi áfram að vera umsóknarríki í Evrópusambandið.

En hvað með þingsályktunina sem samþykkt var í júlí 2009? Eru þingmenn stjórnarandstöðunnar ekki líka með þá kenningu um að hún sé „enn í gildi“ og Ísland sé því enn umsóknarríki, þótt allir viti að ekki er lengur þingmeirihluti fyrir þeirri stöðu? Hvers vegna þarf þá þjóðaratkvæðagreiðslu?

En ef það er satt að vinstriflokkunum finnist í raun að Ísland sé enn umsóknarríki, en á sama tíma að einnig eigi að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Ísland skuli vera umsóknarríki, þá verður að spyrja að því hvers vegna þeir héldu ekki slíka þjóðaratkvæðagreiðslu á meðan þeir höfðu sjálfir þingmeirihluta? Frá árinu 2009 og fram á árið 2013 var Ísland umsóknarríki og vinstristjórnin hefði hvenær sem var getað haldið þjóðaratkvæðagreiðslu, en kaus að gera það ekki.

Vinstristjórn Jóhönnu, Össurar, Steingríms og Katrínar hefði getað haldið þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2009 þar sem kjósendur hefðu verið spurðir hvort Ísland ætti að verða umsóknarríki. Hún ákvað að gera það ekki.

Eftir að umsóknin var send til Brussel hefði vinstristjórn Jóhönnu, Össurar, Steingríms og Katrínar hvenær sem var getað haldið þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kjósendur hefðu verið spurðir hvort Ísland ætti að vera umsóknarríki áfram. Hún ákvað að gera það ekki.

En núna, þegar kjósendur hafa hafnað vinstriflokkunum og ekki er meirihluti á Alþingi fyrir þessu baráttumáli vinstriflokkanna, þá verður auðvitað að halda þjóðaratkvæðagreiðslu.

Með öðrum orðum er skoðun þingmanna vinstriflokkanna þessi: Við megum láta Ísland óska eftir inngöngu í erlend ríkjabandalag, án þjóðaratkvæðagreiðslu. Eftir að við höfum gert það, þá megum við líka láta Ísland halda áfram að vera umsóknarríki, án þess að halda þjóðaratkvæðagreiðslu.

En… þegar við höfum ekki lengur þingmeirihluta, þá breytast reglurnar. Þá má næsta ríkisstjórn ekki afturkalla inngöngubeiðnina. Hún verður að standa áfram, þótt við höfum misst völdin.

Hvernig væri að fréttamenn spyrðu stjórnarandstöðuleiðtogana hvort þeir muni, þegar þeir komast til valda eftir tvö ár, taka upp inngönguþráðinn í Brussel án þess að halda þjóðaratkvæðagreiðslu áður.

Spurningin getur verið einföld: Má næsta ríkisstjórn halda áfram/hefja að nýju vinnu við aðildarumsókn að Evrópusambandinu, án þess að halda áður þjóðaratkvæðagreiðslu um þá ákvörðun?