Þriðjudagur 17. mars 2015

Vefþjóðviljinn 76. tbl. 19. árg.

Alþingi fól ríkisstjórn Samfylkingar og VG að sækja um og ljúka aðildarviðræðum við ESB. Stjórnin fór ekki að þeim þingvilja heldur hætti aðildarvinnunni formlega í janúar 2013 án aðkomu alþingis.
Alþingi fól ríkisstjórn Samfylkingar og VG að sækja um og ljúka aðildarviðræðum við ESB. Stjórnin fór ekki að þeim þingvilja heldur hætti aðildarvinnunni formlega í janúar 2013 án aðkomu alþingis.

Stjórnarandstöðuþingmenn, sem hafa áhyggjur af því að þingræðinu hafi verið vikið til hliðar þegar utanríkisráðherra hrinti þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að slíta viðræðum við Evrópusambandið í framkvæmd, hafa ýmis úrræði.

* Þeir geta lagt fram tillögu á þingi um að ríkisstjórnin sæki um aðild.

* Þeir geta lagt fram vantraust á utanríkisráðherrann.

* Þeir geta lagt fram vantraust á ríkisstjórnina.

Reyndar þáðu þessir sömu stjórnarandstöðuþingmenn það ekki fyrir ári að fram færi sérstök mæling á þingviljanum í þessu máli. Þá komu þeir í veg fyrir það með málþófi að greidd yrðu atkvæði um tillögu til þingsályktunar um þetta efni.

Margir þessara þingmanna sátu einnig á þingi á síðasta kjörtímabili þegar ríkisstjórnin gerði formlegt hlé á viðræðunum við ESB án þess að leita til þingsins. Eins og sjá má á þessu minnisblaði frá vinstri stjórninni í janúar 2013 var um að ræða samkomulag milli stjórnarflokkanna án aðkomu alþingis. Þar sagði meðal annars:

Ekki verður um frekari vinnu að ræða við mótun samningsafstöðu Íslands í þeim fjórum köflum sem enn eru ófrágengnir.

Þá hafði í raun staðið yfir óformlegt hlé um langt skeið þótt þáverandi þing hefði samþykkt að „fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.“ 

Vinstri stjórnin fór ekki að vilja alþingis, þvert á ályktun þingsins frá 2009 stöðvaði hún verkið sem alþingi hafði falið henni að ljúka og leggja fyrir þjóðina.

Og nú heimtar hún að ný ríkisstjórn ljúki verkinu sem hún sjálf sveikst um þótt enginn vilji sé lengur til þess í þinginu.