Vefþjóðviljinn 75. tbl. 19. árg.
Fjölmiðlamönnum finnast skoðanir eins fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins mjög mikilvægar þegar kemur að Evrópumálum. Þegar reynt er að fá núverandi forystumenn flokksins til að láta undan kröfum Samfylkingarinnar, er þessi fyrrverandi formaður í nær daglegum viðtölum. Skrifi hann blaðagrein er vitnað í hana í fréttum. Skrifi hann á netið er gerð frétt um það. Hafi hann ekki skrifað, þá er hringt í hann. Og alltaf er tekið fram að hann sé fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra. Hann var forsætisráðherra í rúmlega eitt ár og lét af formannsembættinu fyrir tæplega aldarfjórðungi.
Um helgina var Þorsteinn Pálsson fenginn í umræðuþáttinn Sprengisand á Bylgjunni. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins sagði hann þar að „það væri engin tilviljun að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefði hurnið eftir síðasta landsfund hans, þar sem núverandi stefna hans í Evrópumálum var samþykkt.“
Þessi söngur er ekki nýr af nálinni, því annar maður, sem sífellt er í viðtölum þegar reynt er að þrýsta á Sjálfstæðisflokkinn að taka upp stefnu Samfylkingarinnar, Benedikt Jóhannesson, hefur sungið hann lengi.
Þetta er í raun algerlega ótrúlegur málflutningur.
Allir eiga að vita hvað olli fylgishruni Sjálfstæðisflokksins í febrúar 2013. Það var ekki landsfundur flokksins. Nei, þann 28. janúar 2013 dæmdi EFTA-dómstóllinn í Icesave-málinu. Þetta geta allir séð á gögnum frá Datamarket sem styðjast við kannanir Capacent.
Í síðasta Icesave-málinu gerði forysta Sjálfstæðisflokksins og meirihluti þingflokks hans mjög alvarleg mistök. Þrátt fyrir að landsfundur hefði tekið eindregna afstöðu gegn Icesave ákvað forystan og meirihluti þingflokksins að fylgja ráðum áköfustu ESB-sinna flokksins og leggjast á sveif með Jóhönnu-stjórninni. Á sama tíma barðist Framsóknarflokkurinn af hörku gegn samningnum, eins og stór hluti óbreyttra sjálfstæðismanna gerði að sjálfsögðu, auk nokkurra þingmanna flokksins.
Þegar Icesave-dómurinn var kominn, hrundi fylgi Sjálfstæðisflokksins eins og búast mátti við, en fylgi Framsóknarflokksins rauk upp.
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í miðjum febrúar 2013 tók flokkurinn mjög afgerandi afstöðu í Evrópusambandsmálum. En eftir fundinn gerðist það hins vegar að nokkrir ákafir ESB-sinnar í flokknum fóru í látlaus viðtöl til að gagnrýna stefnu flokksins. Fjölmiðlamenn hömuðust á forystu flokksins. Það bar því miður þann árangur að nokkrir forystumenn byrjuðu að tala með öðrum hætti en samþykkt var á landsfundinum, og eru þeir afleikir enn að valda flokknum vandræðum, því fjölmiðlamenn þreytast ekki á að endursýna afleikina en þegja um allt annað.
Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins, sem höfðu horft upp á forystuna leika illilega af sér í Icesave-málinu, þrátt fyrir skýra niðurstöðu landsfundar, þurftu því aftur að fylgjast með henni reyna enn að friða sama fámenna en háværa hópinn. Auðvitað drógu margir þeirra þá ályktun að Icesave-málið hefði greinilega ekki verið nein tilviljun. Sjálfstæðisflokknum væri einfaldlega ekki treystandi í Evrópumálum. Forystan gæti hvenær sem er látið fámenna ESB-arminn kúga sig.
Auðvitað sést best hversu rangt það er, að hörð afstaða í ESB-málum á landsfundi hafi dregið úr stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn, þegar menn rifja upp hvert fylgið fór. Það fór ekki til Samfylkingarinar eða til Bjartrar framtíðar. Það fór til Framsóknarflokksins. Þeir, sem í febrúar og mars 2013 hættu við að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, kusu í staðinn Sigmund Davíð, Gunnar Braga, Ásmund Einar og Vigdísi Hauksdóttur.
Þeir flokkar sem studdu aðild að Evrópusambandinu fengu innan við fjórðung atkvæða, samtals. En samt er því haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað miklu fylgi vegna neikvæðrar afstöðu sinnar til ESB. Það er ótrúlegt að menn komist upp með að halda þessu fram opinberlega.
Hverjir ætli það hafi nú verið sem ráðlögðu forystu Sjálfstæðisflokksins eindregið að samþykkja Icesave, þvert gegn samþykkt landsfundar í málinu? Hverjir ætli hafi svo byrjað, vorið 2013, að hræða forystumenn flokksins frá þeirri skýru stefnu sem landsfundur hafði ákveðið í ESB-málinu? Hverjir eru það sem alltaf urðu undir á landsfundi en höfðu sitt fram í bakherbergjum?
Fylgi Sjálfstæðisflokksins hrundi eftir Icesave-dóminn. Flokkurinn mun ekki ná sér á strik fyrr en hefðbundnir kjósendur hans telja sig geta treyst þingflokknum í Evrópumálum. Það traust endurheimtist ekki með hiki og hræðslu við stjórnarandstöðuna og fjölmiðla hennar. Og það endurheimtist ekki fyrr en fólk skynjar að forystan sé hætt að þiggja ráð þeirra sem ráðlögðu henni sem ákafast í Icesave-málinu.