Vefþjóðviljinn 74. tbl. 19. árg.
Það vantar ekki upprifjanir fréttamanna á því sem þeir segja einstaka ráðherra hafa lofað fyrir síðustu kosningar. Þeir hafi lofað að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort inngöngubeiðnin í Evrópusambandið yrði afturkölluð. Slík ummæli hafa verið spiluð aftur og aftur og aftur og aftur, ekki aðeins núna heldur ekki síður í fyrra, þegar tillaga um afturköllun var lögð fyrir Alþingi en stjórnarandstaðan lagðist í málþóf.
Þessi upprifjun fréttamanna fer fram oft á dag.
Nú er ekkert að því að rifjað sé upp hvað stjórnmálaflokkarnir segja í aðdraganda kosninga. En það er fullkomlega óeðlilegt hvernig fréttamenn velja úr, annars vegar það sem þeir nefna aldrei, og svo það sem þeir endurtaka mörgum sinnum á dag.
Ef menn vilja segja frá af sanngirni þá eiga þeir til dæmis að segja með sambærilegum hætti frá því að fyrirkosningarnar 20013 markaði landsfundur Sjálfstæðisflokksins skýra stefnu flokksins í kosningnum. Landsfundurinn ákvað þar að flokkurinn vildi afturkalla inngöngubeiðnina en ákvað einnig að engin þjóðaratkvæðagreiðsla skyldi fara fram um slíka ákvörðun. Hana þyrfti hins vegar að halda ef síðar yrði ákveðið að sækja um á ný. Aðildarumsóknin skyldi afturkölluð strax, án þjóðaratkvæðagreiðslu.
Á fundinum hélt Bjarni Benediktsson ræðu og sagði að flokkurinn myndi afturkalla inngöngubeiðnina. Þjóðaratkvæðagreiðsla kæmi eingöngu til greina ef svo færi að flokkar, sem vildu ganga í Evrópusambandið, fengju meirihluta atkvæða í næstu þingkosningum. Eins og menn vita fengu ESB-flokkarnir innan við fjórðung atkvæða.
Hversu oft hafa fréttamenn spilað þetta? Hversu oft hafa þeir útskýrt þessa forsendu Bjarna fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin?
En sömu fréttamenn spila og spila það sem einstakir frambjóðendur sögðu í einhverjum sjónvarpsþáttum, í þeirri von að einhverjir áhorfendur séu svo gleymnir að þeir haldi að með því sé öll sagan sögð.
Auðvitað ættu allir að sjá, að ef stefna flokks, nýsamþykkt á landsfundi eftir langar umræður og atkvæðagreiðslur, fer ekki saman við það sem einstakir frambjóðendur segja í sjónvarpsþáttum, þá gildir auðvitað landsfundarsamþykktin en ekki sjónvarpsviðtalið. Menn ættu að ímynda sér að þetta hefði verið öfugt. Að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefði einmitt samþykkt að ekki skyldi afturkalla inngöngubeiðnina og Bjarni Benediksson hefði ítrekað það í ræðu á fundinum, en svo kæmi í ljós að nokkrir frambjóðendur hefðu sagt annað í sjónvarpsþáttum nokkrum vikum síðar. Dettur einhverjum í hug að fréttamenn, álitsgjafar, Benedikt Jóhannesson og aðrir slíkir myndu láta bjóða sér að flokkurinn neitaði að fara eftir eigin samþykktum og segði einhver sjónvarpsviðtöl skipta meira máli? Dettur einhverjum í hug að fréttamenn myndu þá þegja um landsfundarsamþykktina en spila sjónvarpsviðtölin aftur og aftur og aftur og aftur og aftur og aftur?
Yrðu haldnir útifundir til þess að krefjast þess að flokkurinn færi eftir sjónvarpviðtölunum?
Nei auðvitað dettur engum það í hug.
Ekki frekar en mönnum dettur í hug að halda útifund til að krefjast þess í nafni þjóðarinnar að Sjálfstæðisflokkurinn standi við það kosningaloforð að lækka veiðigjöldin verulega. Fréttamenn og stjórnarandstaðan hafa af einhverjum ástæðum ekki kallað eftir efndum á því.
En ef menn vilja rifja um raunveruleg svik á skýrum loforðum í ESB málinu, þá er til skýrt dæmi um það. Og þar er ekki farið gegn flokkssamþykktum, heldur þvert á móti. Og hér eru ekki hefðbundnar kosningaáherslur á ferð, sem allir vita að geta breyst við stjórnarmyndun þar sem enginn flokkur fær hreinan meirihluta. Hér er beinlínis tekið fram að ekki sé mögulegt að um annað verði samið í stjórnarmyndunarviðræðum. Hér er grjóthart og skýrt loforð, gefið í sjónvarpsumræðum formanna flokkanna, kvöldið fyrir þingkosningarnar 2009.
Um þetta sagði Viðskiptablaðið í fyrra:
Við skulum lesa þessi orðaskipti yfir.
Sigmar Guðmundsson: „Kemur það til greina Steingrímur bara svo ég spyrji þig – bíddu Ástþór – kemur það til greina að hefja undirbúning að því að sækja um, strax núna eftir kosningar…“
Steingrímur J. Sigfússon formaður VG: „Nei!“
Sigmar Guðmundsson: „… vegna þess að þannig hefur Samfylkingarfólkið talað.“
Steingrímur J. Sigfússon: „Nei!“
Sigmar Guðmundsson: „Að þetta byrji í sumar?“
Steingrímur J. Sigfússon: „Nei!“
Sigmar Guðmundsson: „Hvenær getur þetta byrjað?“
Steingrímur J. Sigfússon: „Það samrýmist ekki okkar stefnu og við hefðum ekkert umboð til slíks. Og þó við reyndum að leggja það til, forystufólkið í flokknum, að það yrði farið strax í aðildarviðræður, gagnstætt okkar stefnu, í maí, þá yrði það fellt í flokksráði vinstrigrænna. Þannig að slíkt er ekki í boði.“
Skýrara gat það ekki verið. Þetta var kvöldið fyrir alþingiskosningarnar 25. apríl 2009. Nokkrum dögum síðar mynduðu Samfylkingin og VG ríkisstjórn og ákváðu strax að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þingsályktunartillaga um það var lögð fram strax í maí. Stjórnarflokkanir höfnuðu tillögu um að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla. Í framhaldi af samþykkt þingsályktunartillögunnar var aðildarumsókn send til Brussel. Síðan hófust aðlögunarviðræðurnar.
Kvöldið fyrir kosningar fullyrti Steingrímur J. Sigfússon sem sagt ítrekað að ekki yrði sótt um aðild. Það yrði ekki gert í maí. Þetta myndi ekki „byrja í sumar“. Þetta var allt svikið strax.
Það fólk sem nú gerir hróp að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, hafði það eitthvað við þetta að athuga? Helgi Hjörvar? Össur Skarphéðinsson? Sigríður Ingibjörg Ingadóttir? Svo einhver séu nefnd.
Og hvernig brást Þorsteinn Pálsson við, sá mikli prinsippmaður? Talaði hann mikið um svik? Hvað sagði hann af kögunarhóli sínum?
Hann settist nú bara í „samninganefndina“ fyrir Össur.
Fréttamennirnir? Voru þeir mikið að endurspila loforðin frá vinstrigrænum, loforð sem voru í fullu samræmi við landsfundarsamþykktir sama flokks? Voru haldnir margir útifundir? Hvernig var með prinsippmenn eins og Illuga Jökulsson, Guðmund Andra Thorsson og alla þá félaga sem nú telja sig mjög svikna af Sjálfstæðisflokknum, skrifuðu þeir ekki hástemmdar blaðagreinar um framgöngu Vinstrigrænna? Aðildarumsóknin að Evrópusambandinu var sjálf fengin fram með svikum og undirmálum.
Fréttamennirnir, sem nú spila nokkur sjónvarpsummæli við ráðherra aftur og aftur og aftur og aftur og aftur og aftur og aftur og aftur og aftur, hversu oft ætli þeir hafi spilað hin eindregnu fyrirheit Steingríms J. Sigfússonar þegar verið var að þjösna þingsályktunartillögu um aðildarumsókn í gegnum þingið?