Vefþjóðviljinn 40. tbl. 19. árg.
Þessa dagana ræða fréttamenn og fleiri mikið um hvort ríkið eigi að kaupa erlend bankagögn, sem munu vera stolin, og fá þannig upplýsingar um einhverja Íslendinga sem sagðir eru hafa komið peningum fyrir erlendis, undan klóm íslenskra skattheimtumanna. Að sjálfsögðu reyna svo einhverjir að nota sér vangaveltur íslenskra stjórnvalda í málinu til að gefa til kynna að fjármálaráðherann dragi lappirnar til að komast hjá því að listinn verði keyptur.
Á honum séu auðvitað vinir hans.
Sú samsæriskenning er auðvitað ekki mjög sennileg, því ráðherrann hefði auðvitað getað sagt strax að ríkið keypti ekki þýfi, og þar með hefði málið verið úr sögunni. Þess í stað sagðist hann reiðubúinn að tryggja fjárveitingar til að kaupa listann, ef skattrannsóknarstjóri teldi ástæðu til þess. Nú virðist hins vegar hafa komið á daginn að sölumaðurinn vill ekki fá „árangurstengda greiðslu“ heldur greiðslu hvort sem listinn kemur að gagni eða ekki.
Þeir sem vilja að listinn verði keyptur, þótt enginn viti hvert verðið er fyrir hann, vita auðvitað ekki heldur hvort listinn kæmi að einhverju gagni. Það veit enginn ennþá. Að minnsta kosti virðist seljandinn ekki reiðubúinn að semja um greiðslur í samræmi við gagnið sem skatturinn hefði af listanum.
Það sem vantar í umræðuna er almenna umræðan. Á ríkið að borga fyrir slíka hluti? Á ríkið að kaupa þýfi? Hvað á ríkið að gera ef það ríki, þar sem gögnunum hefur verið stolið, vill fá upplýsingar um nafn þjófsins? Ef slíku yrði neitað, hefði það áhrif á möguleika íslenskra yfirvalda til að fá aðstoð erlendis við rannsókn mála?
Hugsanlega yrðu ekki slík vandamál af kaupunum. Einhver erlend ríki hafa keypt slíkar upplýsingar, að minnsta kosti Þýskaland. Þar skiluðu upplýsingarnar talsverðum fjárhæðum í ríkissjóð, ekki síst af því að margir þáðu boð um að gera hreint fyrir sínum dyrum að eigin frumkvæði gegn því að verða ekki refsað.
Hvað munu menn segja ef listinn skilar ekki þeim árangri sem menn búast við? Ja, við borguðum stórfé, fyrir gagnslausan lista, til manns sem við segjum ekki hvað heitir.
En hugsanlega eru þarna upplýsingar sem gætu nýst vel.
Um þessa hluti ætti að ræða almennt og án æsings.
Eitt af því sem er þreytandi við umræðu um slík mál er lýðskrumið. Frasarnir um að þeir, sem komi sér hjá skattgreiðslum, ætlist til þess að aðrir borgi fyrir þá heilsugæsluna, skólana og allt hitt sem ríki og sveitarfélög gera. Þetta er yfirleitt innhaldslaust gaspur.
Menn geta ímyndað sér auðmann sem ætti samkvæmt lögum að greiða 120 milljónir króna í skatta. Hann er hins vegar slægur og hefur vafasaman endurskoðanda. Hann telur rangt fram til skatts og kemur greiðslum sínum niður í 100 milljónir. Hann kemur tuttugu milljónum undan. Það er lögbrot sem ber að fordæma. Það breytir ekki því að þessi maður borgar miklu hærri skatta á hverju ári en meðalmaður gerir á starfsævinni. Þessi maður mun borga miklu meira til ríkisins en hann fær í þjónustu frá því. Hann brýtur lögin, en hann á yfirleitt alls ekki skilið lýðskrumið um manninn sem vill að aðrir borgi fyrir sig heilsugæsluna.