Helgarsprokið 8. febrúar 2015

Vefþjóðviljinn 39. tbl. 19. árg.

Hún er lág háfjaran.
Hún er lág háfjaran.

Fyrir þrjátíu og fimm árum var mynduð ríkisstjórn sem kennd var við Gunnar Thoroddsen. Þessa ríkisstjórn mynduðu Alþýðubandalagið og Framsóknarflokkurinn ásamt þremur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem allir fengu ráðherraembætti, og einum sem hét því að verja stjórnina vantrausti. Að sjálfsögðu réði þessi stjórn illa við viðfangsefni sín og á valdatíma hennar fór verðbólgan í landinu langt yfir 100%, sem að sjálfsögðu var Íslandsmet sem stendur enn. 

Sjálfstæðisflokkurinn var eindregið andvígur þessari ríkisstjórn, eins og landsfundur hans ítrekaði. Engu að síður fóru þessir fjórir þingmenn flokksins sínu fram og fengu auðvitað mikið hrós andstæðinga flokksins. Þeir væru að „fara gegn flokksræðinu“, sem þykir alltaf mjög lofsvert þegar einstakir kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins standa með vinstrimönnum en fara gegn eigin flokki í einhverju grundvallarmáli. 

Auðvitað var ríkisstjórnarmyndun eins og þessi mjög sérkennileg. Þarna var stuðst var við nokkra menn úr öðrum flokki til að mynda ríkisstjórn sem sami flokkur var mjög andvígur. En vinstrimenn sáu þarna möguleika á að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn. Ef vinstrimenn sjá möguleika á því að gera honum skráveifu, finnst þeim flestar aðferðir réttmætar. Við þær aðstæður skipta stjórnskipunarreglur eða stjórnskipunarvenjur litlu málu. Skemmst er að minnast atburðanna í ársbyrjun 2009, þegar Sjálfstæðisflokknum var kippt úr ríkisstjórn, forseti Íslands gerði ekkert með tillögur þáverandi forsætisráðherra, og mynduð var minnihlutastjórn vinstriflokkanna í skyndingu. Hjálpaði þá auðvitað að Framsóknarflokkurinn var í allsherjar taugaveiklun eftir bankahrunið og var til í að lofa hverju sem er, í þeirri von um að komast í skjól fyrir hatrömmustu umræðunni.

Verðbólga langt yfir 100 prósentum á ári hljómar hugsanlega ótrúlega í eyrum yngra fólks í dag. Það er ekki mikil saga kennd í skólunum, hvorki samtímasaga né önnur. Það er hins vegar óhætt að fullyrða að á áttunda og níunda áratug síðustu aldar hefðu margir hlegið ef þeim yrði sagt að svo mjög myndi efnahagsástand á Íslandi breytast að árið 2014 myndu landsmenn fá tugi milljarða króna í bætur vegna þess hræðilega forsendubrests sem þeir hefðu orðið fyrir, þegar verðbólga fór umfram 4%.

Þegar menn hugsa til þess hvernig verðbólga var á Íslandi á þessum áratugum þurfa þeir ekki heldur að furða sig á því að verðtryggingu hafi verið komið á. Það var ekkert réttlæti í því að lán yrðu því sem næst að engu, vegna verðbólgu, áður en lántakinn borgaði. Hver ætti að lána við slíkar aðstæður? Það er ekki nema við þær aðstæður að menn telja sig vita nokkurn veginn hver verðbólgan verður á lánstímanum sem raunhæft verður að semja um óverðtryggð lán, því þá miða menn vextina við þá verðbólgu sem þeir búast við.

Það er margt annað en meira en 100% verðbólga sem ungu nútímafólki finnst eflaust framandi við þennan tíma, sem þó er svo skammt undan. Á þessum árum mátti til dæmis enginn nema ríkið senda út efni í útvarpi eða sjónvarpi.
Það gekk ekki átakalaust að breyta því. Sjálfstæðisflokkurinn barðist fyrir frelsi á þessum sviðum, en vinstrimenn máttu ekki heyra það nefnt. Þeir töldu lykilatriði að fólk hefði ekki aðgang að öðrum ljósvakamiðlum en Ríkisútvarpinu. Það var talsvert komið á níunda áratuginn þegar tókst með mikilli baráttu að fá þessu breytt, en það hefði auðvitað ekki tekist ef þáverandi forysta Sjálfstæðisflokksins hefði alltaf gefist upp þegar vinstrimenn hófu andstöðu sína. 

Þeir flokkar sem mynduðu Samfylkinguna fyrir nokkrum árum voru Alþýðuflokkurinn, Alþýðubandalagið og Samtök um kvennalista. Þessir flokkar voru allir í stjórnarandstöðu þegar einkaréttur ríkisins til útvarps og sjónvarps var afnuminn. Og hversu margir þingmanna þessara flokka, Samfylkingarflokka, studdu nú frelsi í útvarpi og sjónvarpi? 

Enginn.

Ef mönnum finnst þessi tími vera löngu liðinn, þá má nefna að meðal þeirra sem sátu á þingi og studdu ekki frjálst útvarp voru þingmenn sem hétu til dæmis Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir. Að ógleymdum Svavari Gestssyni sem nýlega náði einmitt glæsilegri niðurstöðu í Icesave-málinu.

Það er ekki víst að allir yngri kjósendur þekki alla þessa sögu. Eða þá sögu sem áfram hélt. Að þeir viti hverjir börðust fyrir frelsi í atvinnulífinu, hverjir vildu leyfa Íslendingum eins og öðrum að kaupa bjór í eigin landi, hverjir vildu leyfa kaupmönnum að ráða hvenær verslanir væru opnar, hverjir voru almennt talsmenn athafnafrelsis frekar en banna, frekar talsmenn lágra skatta en hárra, og svo framvegis.

Kannski hefur margt ungt fólk í dag ekki hugmynd um þetta. Það heldur kannski að frelsið sé fyrst og fremst mál þeirra sem berjast fyrir því að menn megi hlaða niður bíómyndum án þess að borga þeim sem bjuggu þær til. 

Nei, það getur varla verið. Það á ekki að vanmeta ungt fólk.