Laugardagur 7. febrúar 2015

Vefþjóðviljinn 38. tbl. 19. árg.

Í þetta skiptið fór maísinn í þessa fínu samloku í stað þess verða meinlokunni um etanól á bíla að bráð. Ef Íslendingar hefja brennslu matjurta-etanóls í bílvélum gæti það samsvarað fæðu fyrir 100 þúsund manns á ári.
Í þetta skiptið fór maísinn í þessa fínu samloku í stað þess verða meinlokunni um etanól á bíla að bráð. Ef Íslendingar hefja brennslu matjurta-etanóls í bílvélum gæti það samsvarað fæðu fyrir 100 þúsund manns á ári.

Líkt og fyrirspurnir Brynhildar Pétursdóttur þingmanns Bjartrar framtíðar til umhverfisráðherra um matarsóun bera með sér er henni þetta ekkert léttmeti heldur alvörumál.

En matarsóun felst ekki aðeins í því að ljúka ekki af diskinum sínum eða fleygja gömlum kálhaus úr ísskápnum.

Fyrir tæpum tveimur árum voru sett lög sem nánast skylda íslensk olíufélög til að hefja innflutning á eldsneyti úr matjurtum á borð við repju, hveiti og maís.

Margir telja að með því að setja þessi matvæli á bíla aukist líkur á því að einhver fái ekkert að borða, svelti vegna lagasetningar langt í burtu.

Ætla má að til að fullnægja 5% íblöndun maís-etanóls þurfi að flytja inn að minnsta kosti 10 milljónir lítra af etanóli til að blanda í bensín fyrir íslenska bílaflotann.

Með þeim maís sem þarf til að framleiða 10 milljónir lítra af etanóli væri hægt að brauðfæða 100 þúsund manneskjur í heilt ár.

Íslendingar munu greiða meira fyrir matjurta-etanólið en venjulegt bensín og ekkert bendir til að etanólið sé umhverfisvænna.

Hvað er hægt að kalla þetta annað en hryllilega matarsóun?