Helgarsprokið 11. janúar 2015

Vefþjóðviljinn 11. tbl. 19. árg.

Klói var reyndar mjög fyndinn í skaupinu.
Klói var reyndar mjög fyndinn í skaupinu.

Samkvæmt fréttum horfðu mun færri á áramótaskaup Ríkisútvarpsins nú um áramótin en venja hefur verið. Aðeins 63,5% landsmanna munu hafa horft á skaup nú, sem er mikil fækkun frá því sem áður var.

Raunar er umdeilanlegt hvort nokkur hafi horft á áramótaskaup nú um áramótin. Svo virtist nefnilega sem Ríkisútvarpið hefði ákveðið að sýna ekki áramótaskaup að þessu sinni en í staðinn hafi verið gerður þáttur þar sem umsjónarmenn helltu úr skálum reiði sinnar yfir ríkisstjórnarflokkana og þann hluta almennings sem er sekur um að hafa rangar skoðanir á mörgum málum.

Lítið virtist fara fyrir gríni í þættinum en meira fyrir „ádeilu“. Framsóknarmenn eru spilltir en sjálfstæðismenn vondir. Stjórnarandstaðan kom ekkert til tals. Meirihlutinn í borgarstjórn þótti greinilega ekki eiga mikið erindi heldur, en hins vegar var atriði um Jón Gnarr. Hann fékk enga Framsóknarflokks-meðferð heldur var sungið um að Jón hefði átt mörg skemmtileg uppátæki sem borgarstjóri, en hætt þar sem honum hefði leiðst pólitískt stagl í hinum.

Hæðst var að þeim sem hafa rangar skoðanir á fjölgun ferðamanna, útlendingum eða byggingu mosku. Jafnvel þeir sem kunna að meta morgunbæn í Ríkisútvarpinu fengu svolítið grín um sig. Ekkert var um þá sem kunna að vera annarrar skoðunar. Þættinum, sem fjallaði fyrst og fremst um hversu stjórnvöld væru vond, hefðu svikið loforð og lækkað veiðigjald, lauk svo á söng um að menn ættu að sýna öllu og öllum kærleika.

Auðvitað má segja að lítið þýði að rífast um húmor og ekki sé hægt að sanna að eitt sé fyndið en annað ekki. Kannski er það mjög fyndinn brandari í skaupi að sjúklingar deyi umvörpum vegna niðurskurðar á spítölum, að sjúklingur komist ekki í krabbameinsmeðferð af því að læknarnir ætli að flytja til Noregs og að talið sé upp það sem sé athugavert við skuldalækkanirnar sem ríkisstjórnin stóð fyrir á fasteignalánunum. Kannski eru þetta bara sniðugir brandarar en ekki bara pólitísk gagnrýni. Auðvitað er þetta smekksatriði. En það er ekki smekksatriði að engin tilraun var gerð til að sýna stjórnarandstöðuna í sama fyndna ljósinu.

Að sjálfsögðu á ekki að dæma Ríkisútvarpið eftir einum þætti, hvað þá gamanþætti sem seint verður metinn eftir mælikvarða rökvísinnar. Þegar því er haldið fram að á Ríkisútvarpinu sé veruleg slagsíða þá er það ekki sagt vegna eins þáttar, einnar fréttar, eða örfárra atvika. Það er sagt vegna þeirrar heildarmyndar sem mörgum finnst blasa við, ef þeir fylgjast með dagskrá þess um langt skeið.

Það er ekki pólitísk slagsíða á öllum þáttum Ríkisútvarpsins. Og það er ástæðulaust að halda fram að í gangi sé útbreitt þaulhugsað útbreitt samsæri vondra starfsmanna um að halla réttu máli eða gefa almennt ranga mynd af veruleikanum. Viðhorf starfsmanna lita hins vegar iðulega dagskrá, þáttagerð, val viðmælenda og val umfjöllunarefna. Það þarf ekki að koma á óvart. Sá sem þarf að stýra þætti um eitthvert þjóðfélagsmál hann leitar til viðmælenda sem honum finnst að hafi eitthvað til málanna að leggja. Hann hefur oft lesið greinar eftir Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði og fundist þar mjög skynsamlega haldið á málum. Best að fá Stefán í þáttinn, hann veit allt um hvernig Svíarnir hafa þetta, mjög fróðlegt að heyra það. Þáttastjórnandinn hefur líka lesið bloggfærslur eftir marga menn sem eru ósammála Stefáni, en honum finnst þeir meira og minna bilaðir. Það vill enginn fá öfgamenn í þáttinn, þeir koma ekki til greina. En hvern á ég að hafa með Stefáni? Jú, hvernig er með Jón Ólafsson á Bifröst, hann er nú alltaf yfirvegaður. Nýjasta greinin hans í tímariti Hugvísindastofnunar fær mikið lof.
Þannig verða til þættir eftir þætti, án þess að nokkurt samsæri sé í gangi.

Stjórnandi þáttar telur að staða leigjenda sé mjög slæm. Hann fær fulltrúa leigjendasamtakanna í langt viðtal. Þar er langt mál um þær breytingar sem viðmælandinn vill að hið opinbera geri í þágu leigjenda.Svo er viðtalinu lokið, stjórnandinn þakkar fyrir og kveður með þeim orðum að vonandi náist þessar breytingar allar fram.

Stjórnandanum dettur ekki í hug að reyna að finna einhvern viðmælanda sem vill ekki að þessar breytingar verði gerðar, einhvern sem telur að með þeim yrði gengið of nærri rétti húseigenda, eða að með þeim yrði óhagstæðara að leigja út íbúðir svo færri myndu gera það og færri íbúðir yrðu í boði fyrir leigjendur. Stjórnandinn er ekki í samsæri með félagi leigjenda. Stjórnandanum dettur bara ekki í hug að þetta séu sjónarmið sem eigi neitt erindi. Hver getur verið á móti réttarbótum til leigjenda? Ríkisútvarpið er ekki hugsað fyrir öfgaskoðanir.

Slík viðtöl eru afar algeng. Fólk sem vill opinber útgjöld eða aukna „þjónustu“ á greiða leið að hljóðnemunum. Þeir sem telja að heimurinn sé á heljarþröm í umhverfismálum og þar verði að framkvæma allar tískukenningarnar strax, þeir eru reglulega í samfélagsþáttum. Menn ættu að ímynda sér lætin í „hollvinum“ Ríkisútvarpsins ef þeir, sem eru annarrar skoðunar væru í hverri viku í slíkum þáttum.

Menn ættu raunar að ímynda sér hvernig vinstrimenn brygðust við, ef slagsíða Ríkisútvarpsins breyttist frá vinstri til hægri, frá stjórnlyndi til frjálslyndis. Ef dæmigerður þjóðmálaþáttur Ríkisútvarpsins yrði í stjórn Hannesar H. Gissurarsonar og hann myndi ræða við Björn Bjarnason um ástandið í Frakklandi, við Jón Steinar Gunnlaugsson um nýjustu lagabreytingar og við formann LÍÚ um áhrif veiðigjalds á verðmætasköpun í sjávarútvegi. Á eftir þættinum kæmi svo Helgarhringborðið þar sem Óli Björn Kárason rætti við Birgi Ármannsson, Sigurð Kára Kristjánsson og auðvitað einn vinstrimann til að gæta jafnvægis, en svo hittist reyndar á að það væri einhver sem væri einmitt ósáttur við stefnu eigin flokks í umdeildu máli. Á hverjum degi væri á Rás 1 rætt við einhvern sem teldi að opinber útgjöld væru of mikil, skattar legðust of þungt á atvinnulífið og launamenn og pólitískur rétttrúnaður væri genginn út í öfgar. Víðsjá myndi ekki tala við kynjafræðing nema í annarri hverri viku.

Ekkert af þessu væri vegna samsæris, heldur eingöngu vegna þess að þáttastjórnendur leita oftar til þeirra, sem þeir hafa sjálfir trú á, en til hinna sem þeim þykja ómálefnalegir. Og þáttastjórnendur ræða oftar þau mál sem þeir trúa sjálfir að séu brýn, en þau mál sem þeim finnst vera órökstuddar kreddur. Meðal annars vegna þessa er mikilvægt að stjórnendur þjóðmálaumræðu í ríkisfjölmiðli séu fjölbreyttur hópur sem hefur í raun ólík lífsviðhorf, og stjórnendur og starfsmenn Ríkisútvarpsins fái ekki að fara með stofnunina eins og þeir eigi hana sjálfir.